Stefán Magnússon, skipaskoðunarmaður hjá BSI á Íslandi, segir eigendur smábáta hérlendis vera duglega að halda bátum sínum við og að standast skoðanir.

„Þessum flota er haldið mjög vel við,“ segir Stefán. Menn séu bæði duglegir við að standast skoðanir og bregðist mjög vel við athugasemdum. „Við skoðum viss atriði og menn hafa endurnýjað reglulega það sem við setjum út á.“

Markaður BSI á Íslandi hvað skipaskoðanir varðar segir Stefán vera þá báta sem hvorki heyri undir Samgöngustofu né svokölluð flokkunarfélög. Samgöngustofa skoði báta sem eru yfir fjögur hundruð tonn og flokkunarfélögin þá báta sem skráðir eru hjá þeim.

Skipta með sér smábátaflotanum

„Við eru í raun með smábátaflotann,“ segir Stefán. Þar sé um að ræða allan strandveiðiflotann sem tvö fyrirtæki hérlendis annist skoðanir á.  Auk BSI sé þar um að ræða Löggildingu ehf.

„Þetta eru nokkur hundruð bátar sem eru skoðaðir af okkur,“ segir Stefán. Þegar allt hafi staðist skoðun gefi Samgöngustofa út haffærisskírteini fyrir viðkomandi bát.

Meðal viðfangsefnanna sé jafnlaunavottun og úttektir á ISO 9000 staðlinum sem fyrirtæki vinni eftir.

Stefán Magnússon skipaskoðunarmaður. Mynd/BSI
Stefán Magnússon skipaskoðunarmaður. Mynd/BSI

„Við skoðum bátana á hverju ári. Þetta er búnaðarskoðun, véla- og rafmagnsskoðun  og síðan kemurbolskoðun á floti og bolskoðun á þurru,“ segir Stefán og nefnir einnig  fjarskiptaskoðun.

Skoðun á sumum þáttum fer fram árlega en svo eru önnur atriði athuguð eru á þriggja ára fresti. Stefán segir ávallt farið vel yfir allan öryggisbúnað eins og björgunarbáta og gengið úr skugga um að neyðarblys og flugeldar séu ekki útrunnir. „Og lyfjakistan er skoðuð á hverju ári,“ segir hann.

Tryggja að starfsmenn séu óháðir

Á vefsíðu BSI er sérstaklega tiltekið að utanaðkomandi geti ekki haft áhrif á störf skoðunarmanna fyrirtækisins.

„BSI á Íslandi skuldbindur sig til að tryggja að starfsmenn séu óháðir og verði ekki fyrir þrýstingi sem getur haft áhrif á dómgreind þeirra og að utanaðkomandi aðilar geti ekki haft áhrif á niðurstöður skoðana. BSI á Íslandi starfar sem hlutlaus þriðji aðili og er ekki í ráðgjöf eða kemur að hönnun,“ segir á vef BSI.

Stefán er því spurður hvort fyrir komi að eigendur báta véfengi stundum athugasemdir skoðunarmanna. Hann segir alltaf einhverja vera í þeim gír.

Gert í þeirra þágu

„Sumum finnst þetta vera tómt rugl og bull en flestir eru inni á þessu og þetta er bara orðin regla,“ segir Stefán sem kveður skoðunarmenn ekkert hlusta á þá sem reyna að malda í móinn þegar gerðar séu réttmætar athugasemdir.

Við megum það ekki. Þess vegna er tekið fram að við séum hlutlausir aðilar þannig að við erum ekki að gefa neitt,“ segir Stefán.

Spurður hvað menn vilji helst sleppa með segir Stefán sumum finnist þeir þurfa að endurnýja ákveðna hluti og ört. „Menn röfla yfir ýmsum hlutum. Síðan átta menn sig yfirleitt á því að þetta er nú bara gert í þeirra þágu,“ segir hann.

Allt í gang með hækkandi sól

Nú er að renna upp sú tíð að hvað mest verður að gera í skoðuninni.

„Strandveiðiflotinn fer af stað í maí og þá verða menn að vera búnir að láta skoða og fá haffæri á bátinn því öðru vísi fá þeir ekki strandveiðileyfið,“ segir Stefán. Þetta sé í gangi núna og fram í endaðan apríl.

„Sumir byrja á þessu strax í janúar en svo eru aðrir sem eru alltaf á síðustu stundu þannig að það er alltaf mest að gera í apríl. Aðal þunginn er mars og apríl þegar sól fer að hækka á lofti og snjórinn bráðnar út fjöllunum.“