Norðmenn eru hæstánægðir með veiðar á loðnu í sumar úr íslenska loðnustofninum. Þeir gera ráð fyrir að veiðunum ljúki á næstu dögum og að vertíðin skili þeim um 100 milljónum NOK í aflaverðmæti, eða um 2,1 milljarði ISK.
Þessar upplýsingar koma fram á vef Noreges Sildesalgslag. Enn eru norsku bátarnir að veiðum. Í morgun hafði verið tilkynnt um 57 þúsund tonna afla. Megnið af veiðinni hefur farið fram í grænlensku lögsögunni. Um 42 bátar hafa stundað veiðarnar þegar allt er talið.
Veiðarnar hafa gengið misjafnlega. Einstaka skip hafa fyllt sig í 3 köstum en önnur hafa þurft að taka 20 köst. Skipin hafa orðið vör við mikla loðnu á svæðinu þótt erfitt hafi verið að ná henni sums staðar þar sem hún stóð djúpt.
Verð á sumarloðnu til bræðslu er 1,60 NOK á kíló, eða sem samsvarar 34,2 krónum ISK.