Mikið líf hefur færst á athafnasvæði Bolungarvíkurhafnar eftir að nýtt laxasláturhús Arctic Fish í Bolungarvík hóf starfsemi þar seint á síðasta ári. Auk þessarar viðbótar við starfsemina er Bolungarvíkurhöfn sú höfn landsins sem státar af flestum löndunum á hverju ári. Á síðasta ári voru landanirnar vel á fjórða þúsund talsins

Enn meira líf færist yfir höfnina á vorin og sumrin með grásleppuvertíð og strandveiðum. Auk þess landa í Bolungarvík reglulega Sirrý ÍS, ísfisktogari Jakobs Valgeirs ehf., dragnótarbáturinn Ásdís ÍS, sem gerður er út af útgerðarfélaginu Mýrarholti ehf., og línubátarnir Jónína Brynja ÍS, gerð út af Jakobi Valgeir ehf., Fríða Dagmar ÍS, gerð út af Salting ehf., Indriði Kristins BA frá Tálknafirði og Gjafar ÍS frá Suðureyri.

Sirrý ÍS landaði samtals rúmum 1.335 tonnum á síðasta ári í 21 róðri, Ásdís ÍS rúmu 91 tonni í 10 löndunum, Fríða Dagmar ÍS tæpum 674 tonnum í 48 löndunum, Indriði Kristins BA 87.477 tonnum í 5 löndunum og Jónína Brynja ÍS 646.432 tonnum í 47 löndunum. Auk þess er skipið Novatrans í reglulegum siglingum og löndunum í Bolungarvík með lifandi lax úr sjókvíaeldi Arctic Fish til slátrunar í nýja sláturhúsinu Drimlu.

Hörkuveiði undanfarið

Stefán Pétur Viðarsson, yfirhafnarvörður í Bolungarvík, segir hörkuveiði hafa verið undanfarið og sama hvar dýft sé niður veiðarfæri komi spriklandi fiskur upp. Svona sé þetta um allt land.

Stefán Pétur Viðarsson yfirhafnstjóri í Bolungarvík.
Stefán Pétur Viðarsson yfirhafnstjóri í Bolungarvík.

Hann segir miklar framkvæmdir að baki í höfninni. „Reistir voru tankar fyrir lífrænan úrgang frá sláturhúsinu og það eru búin til verðmæti úr þessu. Á tveimur árum risu svo þessi hús sem hýsa FMS og sláturhús Arctic Fish. Þarna vinnur fjöldi manns svo það er mikið líf hér við höfnina allan ársins hring. Á haustin hefur snurvoðin alltaf verið atkvæðamikil hérna og hér hefur líka alltaf verið öflugur línufloti. Það hefur aldrei vantað neitt í umsvifin hérna,“ segir Stefán Pétur.