Dr. Eyþór Eyjólfsson, stofnandi og stjórnarformaður Norðlenska styrjufélagsins í Ólafsfirði, segir horfurnar í rekstrinum góðar. Félagið keypti styrjur af fyrirtækinu Stolt í Höfnum og flutti þær norður í fyrra.

Styrjunum í stöðinni í Ólafsfirði er ekki slátrað enda um að ræða tegund í útrýmingarhættu bendir Eyþór á. Hrognin séu hins vegar eftirsótt vara og dýrasta fiskafurð sem um geti. Eiginlega megi líka þessum styrjum við bústofn.

Styrjuhrogn frá Norðlenska styrjufélaginu. Mynd/Eyþór Eyjólfsson
Styrjuhrogn frá Norðlenska styrjufélaginu. Mynd/Eyþór Eyjólfsson

„Við strjúkum þær á tveggja ára fresti og  fórum í það í apríl í ár að strjúka þeim. Við unnum kavíar úr eggjum hrygnunnar samkvæmt þessari aðferð sem við erum með leyfi til að vinna,“ segir Eyþór en félagið er með samning um að nýta einkaleyfisvarða aðferð Alfred Wegener Institut í Bremerhaven í Þýskalandi.

Vinnsla hrogna tókst vel

„Við fengum sérfræðinga frá Þýskalandi með okkur til að vinna hrognin og það tókst mjög vel. Við erum búin að láta gefa út sýnishorn af kavíarnum og það hefur komið mjög vel út,“ segir Eyþór. Verðið sem bjóðist sé sanngjarnt.

Á þessu ári hefur ræktun á styrjuseiðum einnig hafist í Ólafsfirði. „Við tókum svil úr hængum og frjóvguðum egg og af því eru komin núna mjög góð seiði sem hafa vaxið og dafnað með ágætum,“ segir Eyþór.

Uppbygging í kortunum

Styrjurnar eru stórar og miklar. Mynd/Aðsend
Styrjurnar eru stórar og miklar. Mynd/Aðsend

Um hvað framtíðin beri í skauti sér segir Eyþór að það verði tíminn einfaldlega að leiða í ljós. „Þessi tegund styrja sem við erum með verður ekki kynþroska fyrr en eftir sjö ár. Þannig að við sjáum ekki hvað þessi seiði gefa fyrr en eftir þann tíma,“ útskýrir hann. Enn sé verið að byggja stöðina upp.

„Við erum komin með klak og seiðaeldi en erum að byggja upp áframeldi og ætlum að vera með fleiri ker þannig að við getum bætt við stofnfiski,“ segir Eyþór. Kominn sé myndarlegur hluthafahópur. Í janúar bættist í hann KEA, Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum og Steinn Logi Björnsson, sem lengi starfaði hjá Icelandair.

Starfsemin er viðkvæm og krefjandi. „Ég hef verið vakinn og sofinn yfir þessu núna í sex mánuði. Við njótum þess að í hluthafahópnum eru eigendur fyrirtækja í Ólafsfirði. Maður hefur alltaf getað leitað allan sólarhringinn til manna og það eru allir boðnir og búnir að koma og hjálpa.“