Útgerðafélagið Aurora Seafood gerir út skipið Klett ÍS á sæbjúgnaveiðum. Davíð Freyr Jónsson hjá Aurora segir að veiðin um þessar mundir gangi vel en í ljósi minkanndi ráðgjafar til veiða á sæbjúgum sé skipaflotinn sem stundað hefur sæbjúgnaveiðar orðinn talsvert of stór.

„Veiðarnar hafa verið skornar niður svo mikið að það er passlegt fyrir okkur að vera bara með eitt skip. Það tekur bara helminginn af árinu að klára þennan skammt,“ segir Davíð Freyr. Hann segir að fyrirtækin líði fyrir of stóran skipakost og lækkandi afurðaverð.

Til stóð á síðasta þingi að ráðherra fengi heimild til að hlutdeildarsetja stjórn veiða á hryggleysingjum svæðabundið eftir að álitamál kom upp um lögmæti svæðisbundinna kvóta. Samhliða þeim breytingum átti að kvótasetja sæbjúgu en farin var sú leið að hengja þá vinnu saman saman við frumvarp um kvótasetningu á grásleppu. Frumvarp um þetta dagaði uppi á Alþingi. Veiðum á sæbjúgum hefur verið handstýrt svipað og veiðum á makríl var stýrt með reglugerðum ár frá ári. Davíð Freyr segir að þessi staða getur ekki talist eðlileg endalaust en síðast þegar ráðuneytið fór sambærilega leið endaði það illa og maður er enn að fylgjast með hvað raunverulega lærðist.

„Haldi þetta áfram þá verður sjávarútvegsráðuneytið á einhverjum tímapunkti komið svo langt út fyrir allt velsæmi að það verður ekkert annað eftir í stöðunni en málaferli af hálfu þeirra sem hafa hagsmuni af þessum veiðum. Við lifum við mikið óhagræði vegna þessa andvaraleysis, sem í dag, er upp á líf og dauða. Vissulega er málið sérkennilega vaxið að því leyti að sjávarútvegsráðherra vísaði því til Alþingis í formi frumvarps sem þingið nær ekki að taka fyrir og samþykkja, meðal annars vegna þess að það var fest utan á önnur mál,“ segir Davíð Freyr.

Viðkvæmir markaðir

Hann segir mikla hagsmuni undir og við það bætist erfið staða á mörkuðum. Þau fyrirtæki sem mest hafa verið við sæbjúgnaveiðar og -vinnslu berjist nú fyrir lífi sínu. Er þá útlit fyrir að sæbjúgnaveiðar lognist út af?

„Nei það er nú ekki komið þangað eins og er, en mestu hefur munað um að útgerðirnar standa saman í þessum stormi og hafa náð samkomulagi sín á milli um stjórn fiskveiða tímabundið. Ógnin af því að veiða sæbjúgu stjórnlaust, í miklu kappi og óhagræði, jafnvel af vondum gæðum og inn á viðkvæman markað í samkeppni við aðrar þjóðir varð þess valdandi að við urðum að bregðast við. Hefðu menn haldið ótrautt áfram hefðu fyrirtækin byrjað að leggja upp laupana. Ógnin af þessari óstjórn er svo íþyngjandi. Hún hefur nú leitt til samkomulags milli útgerðanna um aflamark á hvert einasta skip í flotanum í samræmi við ráðgjöf um heildaraflamark frá Hafrannsóknastofnun. Tæknilega séð höfum við því kvótasett sæbjúgun upp á eigin spýtur. Þetta er óvenjuleg leið sem hefur aldrei verið farin áður en neyðin kennir naktri konu að spinna. Það má ímynda sér hve mikil óstjórnin þarf að vera til þess að aðilar með þessa sömu hagsmuni en gerólíka á öðrum sviðum komi sér saman um að stýra veiðunum.“

Lang stærsti hluti afurða sæbjúgnanna hefur verið seldur til Kína. Þar hefur eftirspurn farið minnkandi og sölutregða ríkjandi. Verð hefur lækkað en allur kostnaður hækkað. Allar flutningskeðjur í kringum Kína eru meira eða minna stíflaðar. Erfitt er að fá gáma undir vöruna og flutningskostnaður helmingi dýrari nú en hann var áður en heimsfaraldurinn reið yfir heimsbyggðina. Allir gámar sem berast til Kína þurfa að fara í gegnum sérstaka Covid-meðhöndlun með sóttreinsun á umbúðum. Þetta er tímafrekt og kostnaðarsamt ferli. Kostnaðurinn lendi á milliliðum sem pressi afurðaverðið niður.

„Sæbjúgnaveiðar, sem er yngsti sprotinn í fiskveiðum við landið, er skilinn eftir í algjöru tómarúmi. Við fáum ekki góðan jarðveg til þess að vaxa. Við erum fastir milli steins og sleggju vegna óstjórnar innanlands og áhrifunum af alheimsfaraldrinum. Okkur bráðvantar skilning á því að ágæti góðrar fiskveiðistjórnunar á líka við um sæbjúgu og að fjármagn til rannsókna á nýjum tegundum er grundvöllur framfara og hagvaxtar í sjávarútvegi“ segir Davíð Freyr.