Því var fagnað á Suðureyri þegar nýr Einar Guðnason ÍS 303 renndi inn Súgandafjörð um miðjan mánuðinn. Hann leysir af bát með sama nafni sem strandaði við Gölt í mynni Súgandafjarðar 14. nóvember 2019. Báturinn nýi, sem er 15 metra langur og mælist 30 brúttótonn, er smíðaður af Bátasmiðjunni Trefjum í Hafnarfirði. Hann kostaði fullbúinn til veiða 277 milljónir króna.
Eftir strand bátsins keypti útgerðarfélagið Norðureyri, stærsti eigandi fiskvinnslunnar Íslandssögu á Suðureyri, bátinn Von ÍS, en honum hefur nú verið lagt.
Eitt ár er síðan Norðureyri samdi við Trefjar um smíðina. Óðinn Gestsson framkvæmdastjóri segir að báturinn hafi strax farið á veiðar og gangurinn hafi verið góður. Báturinn er með öllum nýjasta búnaði og gerður út á línuveiðar innan krókaaflamarkskerfisins. Skipstjórar eru Bjarni Bjarnason og Friðrik Ólafsson.
Þremur metrum lengri
„Það er allt í þessum bát sem er í nýjustu gerðum af bátum í þessum stærðarflokki. Það var ekkert slegið af í þeim efnum enda kostar báturinn fullbúinn til veiða um 277 milljónir króna. Okkur hlakkar bara til að takast á við framtíðina með þessum nýja bát. Stóra breytingin frá fyrri bát er náttúrulega sú að þessi er þremur metrum lengri og einum metra breiðari. Það er þó ekki alveg komin reynsla á það ennþá hvort nýja bátnum fylgi lægri rekstrarkostnaður,“ segir Óðinn.
Báturinn er gerður út á dagróðra með beitingarvél og eru fjórir í áhöfn en áhafnirnar eru tvær. Samtals eru því átta manns starfandi á bátnum en auk þess starfa hjá Íslandssögu um 40 manns við fiskvinnslustörf.
4.000 tonn á ári
„Þetta er fallegur bátur og góður bátur sýnist okkur miðað við ganginn í fyrstu róðrunum. Við höfum farið eina fjóra róðra og verið að fá að meðaltali 10 tonn í róðri hérna í Skálavíkinni. Það hefur verið gott fiskirí en gæftir eru erfiðar núna í augnablikinu. Almennt séð verður öllu landað hérna hjá Íslandssögu en fari hann lengra eftir fiski gæti hann landað annars staðar. Við kaupum líka að jafnaði fisk á markaði til að halda uppi vinnslunni,“ segir Óðinn.
Báturinn er útbúinn til lengri útiveru ef þarf og aðbúnaður um borð fyrir áhöfn í takt við það. Stór borðsalur er í brúnni og svefnpláss fyrir fjóra í lúkar ásamt eldunaraðstöðu með eldavél, bakarofni, örbylgjuofni og ísskáp. Í lest er rými fyrir allt að 43 ker sem eru 460 lítra.
Íslandssaga hefur haldið uppi fiskvinnslu á Suðureyri allt frá árinu 1999. Undanfarin ár hafa verið unnin þar um 4 þúsund tonn á ári. Meðan beðið var eftir nýja bátnum var farið í endurnýjun á vinnslunni í desember síðastliðnum. Uppsöfnuð viðhaldsverkefni voru þar innanhúss og þá var vinnslulína frá Marel uppfærð auk þess sem ný flökunarvél var sett upp. Áherslan er lögð á ferskfiskvinnslu en Óðinn segir að það ráðist þó nokkuð af markaðsaðstæðum hverju sinni hvernig fiskurinn er unninn.
„Það hefur gengið áfallalaust að selja afurðirnar í þessu Covid 19 ástandi. Fyrstu þrjár til fjórar vikurnar í faraldrinum varð dálítið hökt á viðskiptunum en svo opnaðist fyrir þau aftur. Þetta hefur gengið allt þokkalega vel upp frá því,“ segir Óðinn.