Sjómenn þekkja það vel að góða veiði er oft í straumaskilum. Sjálfsagt hafa menn ekki gert sér grein fyrir því að straumaskilin sjálf geta fangað fiska og haldið þeim um lengri eða skemmri tíma.

Á vísindavefnum norska, forskning.no, er birt MYNDBAND af fiskum sem berjast um í straumaskilum eins og þeir væru fastir í neti. Á myndbandinu má sjá straumaskilin á loftbólum sem myndast. Vísindamenn sem rætt er við segjast aldrei hafa séð annað eins.

Myndbandið var tekið þar sem kaldir og heitir sjávarstraumar mætast fyrir utan eyjuna Roca Partida úti fyrir vesturströnd Mexíkó. Í straumaskilunum myndast hringrás líkt og gerist í hvirfilvindi á landi. Ef lélegir sundfiskar lenda í þessum straumaskilum hrífast þeir með en hafa ekki kraft til að slíta sig lausa.

Hringrásin verður til vegna þess að straumarnir eru með misjöfnum hraða. Í fréttinni er tekin samlíking af tveimur mönnum sem ganga hlið við hlið arm í arm. Ef annar þeirra gengur hraðar en hinn gæti það endað með því að þeir snúist í hring.