Alls voru gefin út 670 leyfi til strandveiða á nýafstaðinni vertíð. Þetta er 22 leyfum fleiri en á síðasta ári og 20 leyfum fleiri en á vertíðinni 2014. Flest voru þau gefin út fyrir vertíðina 2012 eða 761 talsins.
Þetta kemur fram á vef Fiskistofu þar sem horft er til baka á vertíðina í ár. Heildarafli strandveiðibáta var 9.146 tonn í 14.942 löndunum. Þorskur var 93% landaðs afla.
Frá því að strandveiðar hófust vorið 2009 hefur meðalafli í róðri aldrei verið meiri en á nýliðinni vertíð. Meðalaflinn var 614 kg sem er litlu meiri afli en á fyrstu vertíðinni en þá var aflinn 572 kg. Í fyrra var hann 575 kg og jókst því meðalafli því um 6,8% milli vertíða.
Svæði A, sem er svæðið frá Eyja- og Miklaholtshrepp til Súðavíkurhrepps, gaf mestan meðalafla í róðri að venju eða 702 kg. Næst komu bátar sem voru á svæði C með 587 kg þá svæði B með 575 kg og svæði D rak svo lestina með 538 kg.
Metfjöldi mála komu upp vegna umframafla sem leiddu til álagningar á vertíðinni. Mánuðina maí til júlí voru málin alls 1.047 talsins en í fyrra komu upp á sama tímabili 898 mál. Þetta er fjölgun um rúm 16%.
Sjá nánar á vef Fiskistofu.