,,Strandveiðar ber hæst í þeim kerfisbreytingum sem gerðar hafa verið,“ sagði Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra í ræðu sem hann hélt á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda sem hófst í morgun.

,,Þær breytingar sem þegar hafa áunnist í stjórn fiskveiða eru ekki litlar og snerta margar hinar smærri útgerðir, líf lítilla útgerðarstaða og snúa að hinni samfélagslegu ábyrgð sem okkur er nauðsynlegt að horfa til í þeim atvinnuvegi sem þyngst vegur.

Hér ber strandveiðina vitaskuld hæst en með henni hefur verið komið til móts við sjónarmið um frelsi og mannréttindi allra til að stunda útgerð innan þeirra marka sem mögulegt er. Aukning í strandveiðinni hefur gefið landsbyggðinni líf og það segir sína sögu að löndunarstaðir strandveiðibáta í landinu voru yfir 60 á liðnu sumri,“ sagði Jón Bjarnason í ræðu sinni.

Ráðherrann minnti á að sveigt hefði verið frá þeirri stefnu að nær öllum aflaheimildum ríkisins sé ráðstafað til útgerða á grundvelli aflamarksreglu, fyrst í skötusel og nú síld. Í úthlutun aflaheimildum í makríl hefði einnig verið farið um nýja stigu og einkanlega verið horft til þess að sem mest af þeim afla færi til manneldis.

,,Undirtektir við þessu hafa verið með ýmsum hætti en í heildina hafa breytingarnar gefist vel. Við höfum náð umtalsverðum árangri í meðferð makrílsins og stöndum þar öðrum þjóðum síst á sporði. Hver sem stefnan er þá er engin aðferð gallalaus eða hafin yfir gagnrýni og það á við um aflamarkskerfið líkt og önnur mannanna verk. Aflamarkskerfið sem hefur verið nær því einrátt í stjórn veiðanna á rétt á sér en er fjarri því að vera algild lausn í öllum vanda,“ sagði Jón Bjarnason.