Frumvörp sjávarútvegsráðherra um byggðapotta, kvótasetningu grásleppu og eftirlit Fiskistofu meðal stórra mála sem ekki tókst að afgreiða.

Þegar Alþingi lauk störfum um síðustu helgi voru einnig nokkur stór mál frá sjávarútvegsráðherra óafgreidd.

Þar á meðal er frumvarp til laga um heildstætt viðurlagakerfi vegna brota, auknar heimildir Fiskistofu til að sinna rafrænu eftirliti og betri skilgreining á hugtakinu raunveruleg yfirráð. Einnig varð útundan frumvarp um töluverðar breytingar á fyrirkomulagi atvinnu- og byggðakvóta, og sömuleiðis varð ekkert úr frumvarpi um kvótasetningu grásleppu, sandkola og hryggleysingja.

Frumvarp Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, formanns atvinnuveganefndar, um að tryggja sjómönnum 48 daga náði heldur ekki fram að ganga, en hún lagði það fram rétt í blálokin á þinginu.

Óvissa áfram

Landssamband smábátasjómanna (LS) hefur lagt höfuðáherslu á að sjómönnum verði tryggðir 48 dagar, 12 í hverjum mánuði. Arthur Bogason, formaður LS, segir hins vegar að hraðbyri stefni í það að hætta þurfi strandveiðum áður en veiðitímabilinu lýkur.

„Það þarf ekki mikla reiknihausa til að sjá það fyrir sér,“ segir hann.

Arthur sagðist sannfærður um að ráðherra hefði heimildir til þess að grípa inn í þegar líður á sumarið.

„Það er nóg af veiðiheimildum úr að spila til að bæta við þennan pott ef bara nógu vel er að gáð. Ég ætla bara að trúa því í lengstu lög að sjávarútvegsráðherra ætli að halda þessum körlum við efnið eins lengi og hægt er á tímabilinu,“ segir hann.

„Menn sáu hvernig þessu reiddi af á þinginu, og nú er þingið farið heim. Ekki mun bjargræðið berast þaðan, það er alveg ljóst.“

Veiðin gengið vel

„Þessu hefur verið óvenjulega misskipt. Það hefur veiðst illa á D og C svæði, en verið dúndurfiskerí hérna á vestursvæðinu, og verið gott fyrir norðan. Þannig að í heildina hefur verið meiri veiði heldur en í fyrra,“ segir Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda.

Þarna spilar líka inn í að tíðin hefur verið misjöfn.

„Það hefur verið leiðindatíð fyrir Austfjörðum en bara brakandi blíða hérna á stórum svæðum fyrir Vesturlandi. Þannig að bæði veðrið og fiskiríið hefur spilað með Vestfjörðum og Vesturlandi.“