Heimsmarkaðsverð á fiskimjöli hefur stórhækkað að sögn Financial Times og er nú komið í 2190 dollara á tonn. Ástæðan er sú, að Perú hefur skorið kvóta til ansjósuveiða niður um 70% á síðustu þremur mánuðum. Ástæðan fyrir þeim niðurskurði er minnkandi fiskgengd vegna hlýnunar sjávar, að því er fram kemur á Evrópuvaktinni.
Ein afleiðing af þessari verðhækkun á fiskimjöli er sú, að framleiðendur eldislax leita nú að öðru fóðri fyrir laxinn og reyna að gera hann að eins konar grænmetisætu. Fyrir 15 árum var um 60% af þvi fóðri, sem eldislaxinn fékk fiskimjöl en það hlutfall er komið niður í 7%.
Í frétt FT kemur fram, að fiskeldi hafi stóraukizt í heiminum m.a. vegna aukinnar neyzlu í Kína. Talsmaður fóðurblöndufyrirtækis í Danmörku segir að fæstir neytendur finni mun á laxi, sem fóðraður hefur verið með fiskimjöli og laxi, sem aðallega hefur fengið fóður úr jurtaríkinu, segir ennfremur á Evrópuvaktinni.