Stefán Viðar Þórisson skipstjóri á frystitogara Samherja, Snæfelli EA 310, kleif í byrjun ársins hæsta fjall Suður-Ameríku, Aconcagua í Andes-fjallgarðinum, sem er 6.962 metrum yfir sjávarmáli. Frá þessu segir á vef Samherja.

Stefán Viðar hefur farið í nokkra háfjallaleiðangra á undanförnum árum, meðal annars klifið Kilimanjaro (5.895 m) og Mount Meru (4.562 m) í Tansaníu.

Aconcagua er einn af „Tindunum sjö“ sem eru hæstu fjöll heimsálfanna sjö og er Kilimanjaro í þessum sjö fjalla hópi.

„Ég kleif Kilimanjaro, sem er hæsta fjall Afríku, árið 2020 og í kjölfarið var farið að huga að næsta tindi. Fjallið Elbrus í Rússlandi, sem er hæsta fjall Evrópu, var í sigtinu en stríðið í Úkraínu setti strik í reikninginn,“ er haft eftir Stefáni.

Tólf íslenskir klifrarar

„Fyrir um það bil ári síðan bauðst mér svo að taka þátt í að klífa Aconcagua með tólf íslenskum fjallaklifrurum og undirbúningurinn hófst þar með fyrir alvöru. Leiðsögumaður leiðangursins var Leifur Örn Svavarsson, sem er tvímælalaust einn sá besti hér á landi. Ég þurfti meðal annars að sanka að mér margvíslegum sérhæfðum búnaði, svo sem háfjallagönguskóm, jöklabroddum, dúnúlpu og svefnpoka sem þolir mikið frost,“ segir Stefán áfram.

Tjöld sprungu í loft upp

Sjálf gangan hófst í 2.900 metra hæð skammt frá lúnu skíðahóteli sem gist var á. Við grípum niður í frásögn Stefáns þegar nokkuð var liðið á gönguna.

„Eina nóttina skall á aftaka veður og nokkur tjöld sprungu hreinlega í loft upp. Þetta setti strik í reikninginn fyrir nokkra gönguhópa sem þurftu nýjan búnað og breyta áætlun vegna þessa. Daginn eftir óveðrið var komið að þeirri stund að leggja af stað á fjallið og reyna við sjálfan toppinn,“ segir Stefán sem síðan náði á toppinn með félögum sínum.

Æðislegu takmarki náð

„Útsýnið er í einu orði sagt stórfenglegt svo ekki sé meira sagt. Andes-fjallgarðurinn, sem er risa stór, blasti þarna við manni í allri sinni dýrð. Eftir hálfs mánaðar erfiði og margra mánaða undirbúning stóð ég loksins á toppi Aconcagua ásamt mínum íslensku félögum. Ég hafði alltaf verið með þann fyrirvara í huga að geta ekki náð settu marki, til dæmis vegna veikinda, meiðsla eða háfjallaveiki. En þarna var æðislegu takmarki náð og við stóðum þarna á toppnum í um 45 mínútur og nutum útsýnisins í örþunnu andrúmsloftinu. Þessar mínútur voru hreint út sagt stórkostleg upplifun og gleymast aldrei. Ég er reyndar enn þá að vinna úr þessu öllu saman,“ lýsir Stefán tilfinningunni sem fylgdi því að standa á tindi hæsta fjalls Suður-Ameríku

Mun lengri frásögn af leiðangri Stefáns með mörgum myndum er að finna á vef Samherja.

Stefán Viðar Þórisson skipstjóri á frystitogara Samherja, Snæfelli EA 310, kleif í byrjun ársins hæsta fjall Suður-Ameríku, Aconcagua í Andes-fjallgarðinum, sem er 6.962 metrum yfir sjávarmáli. Frá þessu segir á vef Samherja.

Stefán Viðar hefur farið í nokkra háfjallaleiðangra á undanförnum árum, meðal annars klifið Kilimanjaro (5.895 m) og Mount Meru (4.562 m) í Tansaníu.

Aconcagua er einn af „Tindunum sjö“ sem eru hæstu fjöll heimsálfanna sjö og er Kilimanjaro í þessum sjö fjalla hópi.

„Ég kleif Kilimanjaro, sem er hæsta fjall Afríku, árið 2020 og í kjölfarið var farið að huga að næsta tindi. Fjallið Elbrus í Rússlandi, sem er hæsta fjall Evrópu, var í sigtinu en stríðið í Úkraínu setti strik í reikninginn,“ er haft eftir Stefáni.

Tólf íslenskir klifrarar

„Fyrir um það bil ári síðan bauðst mér svo að taka þátt í að klífa Aconcagua með tólf íslenskum fjallaklifrurum og undirbúningurinn hófst þar með fyrir alvöru. Leiðsögumaður leiðangursins var Leifur Örn Svavarsson, sem er tvímælalaust einn sá besti hér á landi. Ég þurfti meðal annars að sanka að mér margvíslegum sérhæfðum búnaði, svo sem háfjallagönguskóm, jöklabroddum, dúnúlpu og svefnpoka sem þolir mikið frost,“ segir Stefán áfram.

Tjöld sprungu í loft upp

Sjálf gangan hófst í 2.900 metra hæð skammt frá lúnu skíðahóteli sem gist var á. Við grípum niður í frásögn Stefáns þegar nokkuð var liðið á gönguna.

„Eina nóttina skall á aftaka veður og nokkur tjöld sprungu hreinlega í loft upp. Þetta setti strik í reikninginn fyrir nokkra gönguhópa sem þurftu nýjan búnað og breyta áætlun vegna þessa. Daginn eftir óveðrið var komið að þeirri stund að leggja af stað á fjallið og reyna við sjálfan toppinn,“ segir Stefán sem síðan náði á toppinn með félögum sínum.

Æðislegu takmarki náð

„Útsýnið er í einu orði sagt stórfenglegt svo ekki sé meira sagt. Andes-fjallgarðurinn, sem er risa stór, blasti þarna við manni í allri sinni dýrð. Eftir hálfs mánaðar erfiði og margra mánaða undirbúning stóð ég loksins á toppi Aconcagua ásamt mínum íslensku félögum. Ég hafði alltaf verið með þann fyrirvara í huga að geta ekki náð settu marki, til dæmis vegna veikinda, meiðsla eða háfjallaveiki. En þarna var æðislegu takmarki náð og við stóðum þarna á toppnum í um 45 mínútur og nutum útsýnisins í örþunnu andrúmsloftinu. Þessar mínútur voru hreint út sagt stórkostleg upplifun og gleymast aldrei. Ég er reyndar enn þá að vinna úr þessu öllu saman,“ lýsir Stefán tilfinningunni sem fylgdi því að standa á tindi hæsta fjalls Suður-Ameríku

Mun lengri frásögn af leiðangri Stefáns með mörgum myndum er að finna á vef Samherja.