ff

Útflutningur á norskum laxi til Kína hefur meira en tvöfaldast það sem af er ári miðað við sama tíma á síðasta ári, að því er fram kemur í Fiskeribladet/Fiskaren.

Eftir að kínverski andófsmaðurinn Liu Xiabo fékk friðarverðlaun Nóbels árið 2010 hrundi útflutningur á norskum eldislaxi til Kína. Útflutningstölur sýna að þessi þróun er nú að ganga til baka.

Á tímabilinu janúar til júlí í ár voru flutt út 5.827 tonn af ferskum laxi frá Noregi til Kína. Á sama tíma í fyrra voru aðeins flutt út 2.124 tonn. Aukningin er því 174%.

Í Fiskeribladet/Fiskaren er rætt við nokkra laxeldismenn sem segja að eftirspurn eftir norskum laxi í Kína sé mikil og vaxandi. Þeir segja að markaðurinn í Kína sé gríðarstór og ef fram færi sem horfði næðu þeir ekki að anna eftirspurn.