Fyrir dyrum standa viðamestu rannsóknir til þessa á norsk-íslensku síldinni á hrygningartíma við Noregsstrendur. Leiðangurinn verður farinn í febrúar næstkomandi og hafa bæði vísindamenn og sjómenn komið að skipulagningu hans.

Eins og fram hefur komið í Fiskifréttum hafa norskir sjómenn og útvegsmenn dregið í efa að mælingar vísindamanna gefi rétta mynd af stærð norsk-íslenska stofnsins. Þeir telja stofninn sem sagt umtalsvert  stærri en vísindamenn hafa álitið og lagt til grundvallar veiðiráðgjöf vegna kvótasetningar fyrir árið 2015.

Rannsóknin mun standa yfir fyrrihluta febrúarmánaðar og taka þrjú til fjögur fiskiskip þátt í þeim. Markmiðið er að mæla hrygningarstofn síldarinnar á þann hátt sem bæði fiskifræðingar og fiskimenn telja bestan. Fiskimennirnir eru þeirrar skoðunar að endurskoða beri kvótasetningu stofnsins fyrir árið 2015 og að niðurstöður þessarar mælingar verði hluti af þeirri endurskoðun.

Frá þessu er skýrt í Fiskeribladet/Fiskaren í dag.