Flutt hafa verið út 1.192 tonn af frosnum grásleppubúki fyrstu átta mánuði ársins sem er tveimur þriðju meira en á sama tímabili í fyrra. Útflutningsverðmæti nemur 192 milljónum, sem er óviðunandi, að mati Landssambands smábátaeigenda, og hamlar verðhækkunum til grásleppusjómanna.

Fjallað er um málið á heimasíðu LS. Þar segir að hátt í níutíuprósent magnsins hafi farið til Kína og það sem uppá vantar til Hong Kong.

Prýðisvara

„Til þessa hafa Kínverjar ekki mætt neinni samkeppni. Á því gæti orðið breyting þar sem á Íslensku sjávarútvegssýningunni var boðið uppá grásleppubollur sem búnar eru til úr kaldreyktum flökum grásleppunnar. Þær eru tilkomnar fyrir samstarf Bjargs ehf á Bakkafirði, BioPol á Skagaströnd þar sem flökin eru kaldreykt, Háskólans á Akureyri og Bakkasystra. Var það einróma álit, þeirra hundruða sem náðu að bragða á grásleppunni framreidd á sýningarsvæði Landssambands smábátaeigenda, að hér væri um prýðisgóða vöru að ræða. Sjá umfjöllun Fiskifrétta.

Þar sem flakið vegur aðeins 17% af heildarþyngd grásleppunnar er magnið sem til fellur á hverri vertíð lítið. Það ætti að gefa tækifæri til eftirspurnar og viðunandi verðs. Mikill hugur er í Bakkasystrum um að koma vörunni á markað og kynna hana sem lúxusvöru. Hér má lesa umfjöllun Fiskifrétta þar sem rætt var við eina af Bakkasystrum, Evu Maríu Hilmarsdóttur.