Réttir úr grásleppu frá Íslandi verða kynntir á sjávarútvegssýningunni Polfish sem nú stendur yfir í Póllandi.
„Þetta á rætur sínar í vinnu sem hófst á Bakkafirði fyrir nokkrum árum. Fiskvinnslan Bjargið var að velta fyrir sér hvort það væri hægt að nýta grásleppuna betur,“ segir Eva María Hilmarsdóttir, talsmaður hópsins Bakkasystra sem kemur að grásleppuverk efninu í samstarfi við Biopol á Skagaströnd, Háskólann á Akureyri og Bjargið.
Félagið Bakkasystur segir Eva María hafa verið stofnað til þess að reyna að auka fjölbreytni í atvinnutækifærum á Bakkafirði. Hlutverk þeirra í grásleppuverkefninu snúi að markaðssetningu og þróun rétta úr grásleppunni.
Aðdáendur Bakkafjarðar
„Ég stofnaði þetta með nokkrum konum sem hafa tengsl við Bakkafjörð. Í þessu verkefni leitaði ég til vinkvenna minna úr Menntaskólanum á Akureyri sem eru hver með sitt svið,“ segir Eva María. Nefnir hún Fanneyju Dóru Sigurjónsdóttur matreiðslumann, Heiðdísi Höllu Bjarnadóttur, sem er grafískur hönnuður og Katrínu Rut Bessadóttur sem annast kynningar- og markaðsmálin. Sjálf segist Eva María starfa sem flugfreyja í dag og vera í sálfræðinámi.
„Ég hef verið á sjó og er með sterka tengingu við sjávarútveg þótt það sé ekki mitt aðalstarf í dag og menntaskólavinkonurnar eru sérstakir aðdáendur Bakkafjarðar í gegnum þessa vinnu.“
Verkefnið um nýtingu grásleppunnar fékk 4,5 milljónir króna úr svokölluðum Lóusjóði sem styrkir nýsköpun á landsbyggðinni árið 2022 og 18,9 milljóna króna úthlutun úr Matvælasjóði árið eftir.
Síðan hafa sprottið ýmis hliðarverkefni og eitt af því sem við stöndum fyrir er grásleppu hátíð á Bakkafirði. Hún var haldin í annað skiptið í kringum Sjómannadaginn.
„Það er verið að þróa alls konar rétti úr þessu vannýtta hráefni,“ segir Eva María.
Kynnt sem lúxusvara
Að sögn Evu Maríu gengur mjög vel að fá fólk til að borða grásleppuna. „Þetta rýkur alveg út og fólk er mjög hissa, sérstaklega þau sem hafa bara kynnst siginni grásleppu og eru kannski ekki hrifin af henni.
Grásleppan er bæði heitreykt og kaldreykt og er það gert hjá Biopol á Skagaströnd. „Síðan taka matreiðslumeistarar okkar við og búa til réttina. Þetta eru til dæmis bruchettur með salati og heitreyktri grásleppu, krókettur úr kaldreyktri grásleppu og við vorum með brauðtertu úr reyktri grásleppu í sumar,“ segir Eva María.
Næst lá leiðin með grásleppuna á Polfish sjávarútvegssýninguna sem stendur í Gdansk í Póllandi frá 11. til 13. september.
„Við útbúum kynningarefni og matreiðslu meistararnir græja matinn sem við tökum með út og berum fram. Þetta er nýjung sem stendur til að kynna sem lúxusvöru,“ segir Eva María.
Erfitt að vinna grásleppu
Erlendir aðilar hafa að sögn Evu Maríu sýnt áhuga og Brim hf. sé einnig með í verkefninu og fulltrúar fyrirtækisins hafi kynnt reykt grásleppuflök á sýningu í Barcelona í apríl. Viðtökurnar þar hafi verið jákvæðar og í Póllandi séu kynntar fjölbreyttari útfærslur. Spurð hvort hún telji að gera megi vinnslu á grásleppu að arðbærri atvinnugrein segir Eva María möguleikana að minnsta kosti vera til staðar.
„Kokkarnir okkar eru mjög ánægðir með hráefnið. Ókosturinn er að þetta er dálítið bras; það er erfitt að flaka grásleppuna og nýtingin er kannski ekki alveg nógu góð. Ég hef unnið þetta sjálf og það er meira en að segja það,“ útskýrir Eva María.
Mikilvægt og spennandi
Fram kom í Fiskifréttum í ágúst í fyrra að ætlunin væri að hanna og smíða vélbúnað til að vinna grásleppuna og Eva María segir Biopol og Bjargið á Bakkafirði nú vinna að því. Bakkasystur eru þannig hlekkur í stóru samstarfsverkefni.
„Við erum markaðssetningar- og þróunarhlekkurinn. Skyndilega eru menntaskólavinkonur komnar út í sjávarútveginn,“ segir Eva María. Hlutirnir gerist hratt.
„Það er ofboðslega spennandi að taka þátt í þessu verkefni því grásleppan er svo vannýtt og vanmetið hráefni. Hingað til hafa hrognin bara fyrst og fremst verið hirt og lítið gert með fiskinn,“ segir Eva María. Og það sé þeim mikið hjartans mál að sporna við matarsóun. „Það er af svo mörgum ástæðum sem það er mikilvægt að nýta grásleppuna betur.“
Réttir úr grásleppu frá Íslandi verða kynntir á sjávarútvegssýningunni Polfish sem nú stendur yfir í Póllandi.
„Þetta á rætur sínar í vinnu sem hófst á Bakkafirði fyrir nokkrum árum. Fiskvinnslan Bjargið var að velta fyrir sér hvort það væri hægt að nýta grásleppuna betur,“ segir Eva María Hilmarsdóttir, talsmaður hópsins Bakkasystra sem kemur að grásleppuverk efninu í samstarfi við Biopol á Skagaströnd, Háskólann á Akureyri og Bjargið.
Félagið Bakkasystur segir Eva María hafa verið stofnað til þess að reyna að auka fjölbreytni í atvinnutækifærum á Bakkafirði. Hlutverk þeirra í grásleppuverkefninu snúi að markaðssetningu og þróun rétta úr grásleppunni.
Aðdáendur Bakkafjarðar
„Ég stofnaði þetta með nokkrum konum sem hafa tengsl við Bakkafjörð. Í þessu verkefni leitaði ég til vinkvenna minna úr Menntaskólanum á Akureyri sem eru hver með sitt svið,“ segir Eva María. Nefnir hún Fanneyju Dóru Sigurjónsdóttur matreiðslumann, Heiðdísi Höllu Bjarnadóttur, sem er grafískur hönnuður og Katrínu Rut Bessadóttur sem annast kynningar- og markaðsmálin. Sjálf segist Eva María starfa sem flugfreyja í dag og vera í sálfræðinámi.
„Ég hef verið á sjó og er með sterka tengingu við sjávarútveg þótt það sé ekki mitt aðalstarf í dag og menntaskólavinkonurnar eru sérstakir aðdáendur Bakkafjarðar í gegnum þessa vinnu.“
Verkefnið um nýtingu grásleppunnar fékk 4,5 milljónir króna úr svokölluðum Lóusjóði sem styrkir nýsköpun á landsbyggðinni árið 2022 og 18,9 milljóna króna úthlutun úr Matvælasjóði árið eftir.
Síðan hafa sprottið ýmis hliðarverkefni og eitt af því sem við stöndum fyrir er grásleppu hátíð á Bakkafirði. Hún var haldin í annað skiptið í kringum Sjómannadaginn.
„Það er verið að þróa alls konar rétti úr þessu vannýtta hráefni,“ segir Eva María.
Kynnt sem lúxusvara
Að sögn Evu Maríu gengur mjög vel að fá fólk til að borða grásleppuna. „Þetta rýkur alveg út og fólk er mjög hissa, sérstaklega þau sem hafa bara kynnst siginni grásleppu og eru kannski ekki hrifin af henni.
Grásleppan er bæði heitreykt og kaldreykt og er það gert hjá Biopol á Skagaströnd. „Síðan taka matreiðslumeistarar okkar við og búa til réttina. Þetta eru til dæmis bruchettur með salati og heitreyktri grásleppu, krókettur úr kaldreyktri grásleppu og við vorum með brauðtertu úr reyktri grásleppu í sumar,“ segir Eva María.
Næst lá leiðin með grásleppuna á Polfish sjávarútvegssýninguna sem stendur í Gdansk í Póllandi frá 11. til 13. september.
„Við útbúum kynningarefni og matreiðslu meistararnir græja matinn sem við tökum með út og berum fram. Þetta er nýjung sem stendur til að kynna sem lúxusvöru,“ segir Eva María.
Erfitt að vinna grásleppu
Erlendir aðilar hafa að sögn Evu Maríu sýnt áhuga og Brim hf. sé einnig með í verkefninu og fulltrúar fyrirtækisins hafi kynnt reykt grásleppuflök á sýningu í Barcelona í apríl. Viðtökurnar þar hafi verið jákvæðar og í Póllandi séu kynntar fjölbreyttari útfærslur. Spurð hvort hún telji að gera megi vinnslu á grásleppu að arðbærri atvinnugrein segir Eva María möguleikana að minnsta kosti vera til staðar.
„Kokkarnir okkar eru mjög ánægðir með hráefnið. Ókosturinn er að þetta er dálítið bras; það er erfitt að flaka grásleppuna og nýtingin er kannski ekki alveg nógu góð. Ég hef unnið þetta sjálf og það er meira en að segja það,“ útskýrir Eva María.
Mikilvægt og spennandi
Fram kom í Fiskifréttum í ágúst í fyrra að ætlunin væri að hanna og smíða vélbúnað til að vinna grásleppuna og Eva María segir Biopol og Bjargið á Bakkafirði nú vinna að því. Bakkasystur eru þannig hlekkur í stóru samstarfsverkefni.
„Við erum markaðssetningar- og þróunarhlekkurinn. Skyndilega eru menntaskólavinkonur komnar út í sjávarútveginn,“ segir Eva María. Hlutirnir gerist hratt.
„Það er ofboðslega spennandi að taka þátt í þessu verkefni því grásleppan er svo vannýtt og vanmetið hráefni. Hingað til hafa hrognin bara fyrst og fremst verið hirt og lítið gert með fiskinn,“ segir Eva María. Og það sé þeim mikið hjartans mál að sporna við matarsóun. „Það er af svo mörgum ástæðum sem það er mikilvægt að nýta grásleppuna betur.“