„Þetta er sama góða síldin og verið hefur þannig að við höfum ekki yfir neinu að kvarta,“ segir Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti NK sem kom til Neskaupstaðar síðdegis í gær með 1.370 tonn af síld. Þetta kemur fram á vef Síldarvinnslunnar.
„Við enduðum á að veiða 80 sjómílur vestur af Malarrifi. Við vorum þrjá daga á veiðum og þetta fór rólega af stað. Síðan leituðum við og fundum stórar og fallegar torfur þarna utan við kantinn og þá fór að ganga betur. Aflann fengum við í fimm holum og í síðasta holinu voru tæp 500 tonn,“ er haft eftir Tómasi.
Þá segir frá því að Börkur NK hafi komið til Neskaupstaðar aðfaranótt laugardags með 1.244 tonn af síld sem fengust vestur af landinu. Vinnslu aflans hafi lokið aðfaranótt mánudags. Geir Sigurpáll Hlöðversson, rekstrarstjóri fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar, segi að síldin hafi verið mjög góð og hentað í alla staði vel til vinnslu.