,,Stóra frumvarpið mun ekki leiða til sátta, hvorki innan eða utan sjávarútvegsins. Í því eru breytingar sem munu koma fjölmörgum smábátaútgerðum í mikinn vanda og jafnvel gera útaf við einhverjar þeirra. Ég trúi því ekki að óreyndu að slíkt verði látið fara í gegnum löggjafarsamkomu þjóðarinnar,“ sagði Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda, á aðalfundi sambandsins sem hófst í gærmorgun. Yfir eitt hundrað fulltrúar og gestir voru við setningu fundarins, þeirra á meðal sjávarútvegsráðherra.

,,Stjórn LS ályktaði um þetta frumvarp á fundi sínum í júlí sl. Þar var um að ræða að ég held stystu ályktun sem stjórnin hefur nokkru sinni látið frá sér fara á þeim 112 fundum sem hún hefur haldið frá stofnun. Stjórnin hafnaði einfaldlega frumvarpinu. en bauðst sem fyrr til að vinna að sátt í samstarfi við stjórnvöld. Og fyrst hæstvirtur sjávarútvegsráðherra er hér staddur beini ég orðum mínum til hans: þáðu þetta boð. Ég fullyrði að það er ósk allra þeirra sér hér sitja. Að óvissunni linni sem hangið hefur yfir og mun að óbreyttu gera áfram,“ sagði Arthur Bogason ennfremur.