Það sætir tíðindum þegar nýjar fiskvinnslur eru stofnaðar hér á landi. Menn hafa frekar átt því að venjast síðustu árin að þær leggðu af starfsemi. Hvort tveggja er reyndar að gerast þessa dagana. Ein fer og önnur kemur. Arctic Mar ehf. hefur nefnilega fest kaup fiskvinnslunni Gróttu ehf. í Hafnarfirði. sem heitir Grótta ehf. og er í Hafnarfirði. Þar stendur til að vinna allt að 3.000 tonn á ári og hráefnið verður allt keypt á fiskmörkuðum innanlands. Áhersla verður lögð á karfavinnslu hjá Arctic Mar aðallega með þarfir þýska markaðarins í huga.
Baldvin Arnar Samúelsson er stjórnarformaður Arctic Mar. Hann segir málið hafa átt sér talsverðan aðdraganda. Að baki Arctic Mar, sem hefur verið stór kaupandi á íslensku fiskmörkuðunum síðustu misseri, standa auk Baldvins Smári Ríkarðsson og Einar Pálsson. Kaupin á Gróttu ehf. voru gerð í samstarfi við annan stóran kaupanda á íslensku fiskmörkuðunum, ISEY Fischimport í Bremerhaven. ISEY er í íslenskri eigu og er með umfangsmikla fiskvinnslu í Bremerhaven í Þýskalandi. Hin nýstofnaða fiskvinnsla Arctic Mar er þannig í jafnri eigu félaganna tveggja.
Stærstir í karfa í Þýskalandi
ISEY er stærsti framleiðandi karfaafurða í Þýskalandi. Fyrirtækið er ennfremur einn af stærstu kaupendum á íslenskum fiskmörkuðum. Fyrirtækið hefur til að mynda keypt um fimmtung alls karfaafla sem veiðist við Íslandsstrendur og kemur á fiskmarkaði. Fyrirtækið hefur flutt ferskan, óunninn fisk frá Íslandi í þrjá áratugi.
„Við hefðum ekki farið út í þessa starfsemi nema vegna þess að verkefnið er unnið með ISEY. Hugmynd okkar var að nýta okkur þau sambönd sem Kári Sölmundarson, [fyrrverandi eigandi Gróttu ehf.], hefur komið upp og bæta enn frekar í með samstarfi við ISEY sem hefur flutt fisk út frá Íslandi og unnið hann í Þýskalandi. Þetta þýðir að hráefnið er orðið nokkurra daga gamalt þegar það kemur á neytendamarkað. Með samstarfinu verðum við fyrsta viðkomustaðurinn í vinnslu og getum þannig komið ferskara hráefni inn á Þýskalandsmarkað með minna kolefnisspori,“ segir Baldvin.
Sérhæfð vinnsla fyrir karfa
Hann segir að í byrjun verði lögð megin áhersla á karfavinnslu en svo muni það taka breytingum þegar á líður. Þá opnist hugsanlega möguleikar í vinnslu á flatfiski og jafnvel fleiri tegundum. Markmið Arctic Mar er ekki vinnsla á þorskafurðum nema þá hugsanlega síðar meir. Fyrirtækið hefur þó verið tiltölulega stór kaupandi á þorski og ýsu á markaði sem hefur verið seldur í vinnslur erlendis.
„Vinnslan sem Kári setti upp hér á sínum tíma er sérhæfð fyrir karfa og steinbít þannig að hún féll vel að markmiðum okkar. Áform okkur eru helst þau að auka magnið eins og hægt er sem fer í gegnum húsið.“
Það er rík hefð fyrir neyslu á karfa í Þýskalandi. Það á við um fleiri Evrópumarkaði en þó ekki í sama magni og í Þýskalandi.
Arctic Mar verður ekki í hefðbundinni neytendavinnslu heldur verður karfi og steinbítur, eins og áður var hjá Gróttu, handflakaður og pakkaður þannig en líka fluttur út heill í frauðplastpakkningum. Þannig fer hann til frekari vinnslu í Þýskalandi.
Baldvin segir vinnslan sé ágætlega búin núna tækjakosti en áformin kalli á frekari fjárfestingar á seinni stigum því stefnt sé að því að auka vinnsluna. Sömuleiðis myndi þurfa nýjan búnað ef farið yrði út í vinnslu á öðrum tegundum.
Ódýr Rússafiskur
„Fiskverð hefur bara farið hækkandi og heimsmarkaðsverð á fiski hefur rokið upp, sérstaklega í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Það sem hefur samt komið mér á óvart er að það er minni fylgni hækkunar á fiskmarkaðsverði og verðhækkunum á fiski erlendis en ég átti von á. Gengi krónunnar hefur svo sem létt undir með okkur þótt nú sé reyndar yfirvofandi styrking á krónunni.“
Baldvin segir ástæður hás fiskverðs á íslenskum mörkuðum séu ekki alfarið kaup stórra útflytjenda á fiski sem fer óunninn úr landi. Áhrif skerðingar á þorskkvóta til hækkunar á fiskverði blasi við og spurn eftir sjávarafurðum hafi stóraukist um allan heim á síðustu misserum. Verðið hafi leitað ákveðins jafnvægis núna, þegar strandveiðar standa yfir, en það verði sennilega tímabundið ástand.
„Við yrðum mjög sáttir að geta keyrt í gegnum vinnsluna í kringum 3 þúsund tonn á ári. En í söluapparati okkar á ferskum og frosnum afurðum hefur magnið líka verið talsvert. Við vorum orðnir stórir í sölu á hausuðum og slægðum smáþorski til Kína. Um leið og skerðingar í þorski urðu hérna heima má segja að sá markaður hafi horfið mjög snögglega, eingöngu út af verðhækkunum,“ segir Baldvin.
Annað sem hefur áhrif á markaðinn í Evrópu, að mati Baldvins, er mikið magn af ódýrari þorski frá Rússum sem er á allt öðrum og lægri verðum en gengur og gerist með fisk frá Íslandi. Þarna vegist á sjónarmið um viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum og fæðuöryggi í Evrópu. Greinilegt sé að það síðarnefnda hefur haft meira vægi.
Pokinn kemur hjá Ljósafellinu sneisafullur af karfa. Mynd/ÞB