Um 900 manns nýttu tækifærið á sjómannadaginn til að skoða Börk NK, nýtt uppsjávarskip Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri og áhöfn hans leiddu áhugasama um hvern krók og kima í skipinu sem er allt hið glæsilegasta og líklega hið umhverfisvænasta í öllum fiskiskipaflota landsins. Í sumar er stefnt að því að allur búnaður við landanir verði rafknúinn og slökkt á vélum skipsins meðan landað er.

30% minni eyðsla

„Þetta er mun burðarmeira skip en eldri Börkur en það er gríðarlegur munur á olíueyðslu. Við sigldum honum á 13 mílna ferð á annarri vélinni eingöngu. Olíunotkunin var líklega um 30% minni en á gamla Berki. Þetta eru mjög háar tölur og þær telja,“ segir Hjörvar.

Hann segir mun betri aðstöðu í nýja skipinu fyrir alla trollvinnu og það sé mun öflugra að öllu leyti. Vélarnar eru stærri, togkrafturinn meiri og spilin öflugri. Börkur eldri hafi verið mjög gott skip en sá nýi sé öflugri að öllu leyti. Aðbúnaður fyrir áhöfnin sé algjörlega fyrsta flokks.

Hjörvar segir að vert sé að minnast á brúna sem sé sú glæsilegasta sem hann hefur upplifað í skipi.

„Hún er uppfull af þeim besta búnaði sem í boði er. Alls eru átta stórir skjáir samtengdir og við getum skipt þeim upp að vild og sett hvaða tæki sem er á hvaða skjá sem er og í hvaða stærð sem er. Menn útbúa sinn skjávegg sem hentar ólíkum aðstæðum, t.d. einn fyrir siglingu, annan fyrir togveiðar og þann þriðja fyrir nótaveiðar.“

Strax á kolmunna

Verið var að setja endahnútinn á undirbúning fyrir veiðar í höfninni í Neskaupstað þegar rætt var við Hjörvar. Verið var að stilla upp búnaði frá Marporti og klára skráningu skipsins inn á íslenska skipaskrá, ganga frá íslensku haffærisskírteini, setja upp íslenska lyfjakistu og annað sem tilheyrir því að gera skipið klárt til veiða. Það verða átta í áhöfn á togveiðum og 11 þegar farið er á nótaveiðar.

„Við stefnum að því að fara einn túr á kolmunna þegar líður á vikuna og æfa okkur á þessu nýja skipi. Við förum líklega syðst í landhelgina eða þá inn í þá færeysku. Það er mikil tilhlökkun og gott að vita til þess að þetta er sennilega umhverfisvænasta fiskiskip sem hefur komið til Íslands og jafnvel þó víðar væri leitað. Við erum til dæmis með stórar kælipressur til að kæla niður aflann og minni kælipressur til þess að viðhalda kælingunni á heimstíminu og í löndunum. Við keyrum á milli staða alfarið á annarri vélinni. Svo er búnaður í skipinu til að landtengja það í löndunum. Við komum því til með að landa öllum afla með landrafmagni og keyrum enga vél meðan á því stendur. Þetta hefst þegar gengið hefur verið frá öllum búnaðinum í landi seinna í sumar. Það eru mörg og stór skref stigin í orkusparnaði með þessu skipi,“ segir Hjörvar.

Hjörvar er bjartsýnn á að makrílveiðar fari að hefjast. Hann vonast til þess að veiðin verði meiri á heimamiðum en í fyrra en það komi auðvitað ekki í ljós fyrr en í sumar.

Hjörvar segir að alls hafi um 900 manns komið um borð á sjómannadaginn til að skoða skipið en sú tala var staðfest þegar notaðar skóhlífar höfðu verið taldar. Keyptar voru þúsund skóhlífar í kassa og eftir daginn voru tæplega 100 eftir.

Flaska með sögu

Gunnþór B. Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, stjórnaði athöfninni á sjómannadaginn, eins og segir á heimasíðu fyrirtækisins en auk hans tóku til máls þeir Þorsteinn Már Baldvinsson stjórnarformaður og Jón Björn Hákonarson bæjarstjóri Fjarðabyggðar. Séra Dagur Fannar Magnússon blessaði skipið og Anna Margrét Sigurðardóttir, eiginkona Gunnþórs, gaf því nafnið Börkur.

„Við nafngiftina var að sjálfsögðu brotin kampavínsflaska og flaskan sú á sér merka sögu. Þórður M. Þórðarson, sem gegndi starfi skrifstofustjóra Síldarvinnslunnar í þrjátíu ár og allir Norðfirðingar þekktu, færði forstjóra fyrirtækisins flöskuna fyrir mörgum árum með þeim fyrirmælum að alls ekki væri ætlast til að innihaldið yrði drukkið heldur yrði flaskan notuð þegar næstu nýsmíði Síldarvinnslunnar yrði gefið nafn. Því miður lifði Þórður ekki að sjá flöskuna splundrast en hann lést árið 2016,“ segir í fréttinni.

Það kom fram í máli Gunnþórs að það hefði verið einstaklega ánægjulegt að takast á við það verkefni að smíða nýtt skip. Lofaði hann mjög samstarfið við skipsmíðastöð Karstensens í Skagen í Danmörku sem hann álítur að sé besta skipasmíðastöð í heimi til smíða uppsjávarveiðiskipa.

Eins sagði hann að allt samstarf við Samherja hefði verið eins og best var á kosið en systurskip Barkar, Vilhelm Þorsteinsson EA, var einnig smíðað hjá Karstensens og kom það nýtt til landsins í aprílmánuði.

Þakkaði Gunnþór Karli Jóhanni Birgissyni sérstaklega, en hann var eftirlitsmaður Síldarvinnslunnar við smíði skipsins og eins lofaði hann þátt vélstjóranna Harðar Erlendssonar og Jóhanns Gíslasonar.

Umfjöllunin birtist upphaflega í Fiskifréttum 10. júní sl.