Norsk skattayfirvöld ásamt Fiskistofu Noregs eru að setja af stað mikla rannsókn á veiði umfram kvóta, hvernig hún er framkvæmd, hverjir standa að baki henni og hvernig sala á þessum afla fer fram.
Rannsóknin fer fram í samstarfi við Viðskiptaháskóla Noregs. Til stendur að kortleggja umfang ofveiði, með hvaða hætti hún er stunduð og af hverjum. Einnig beinist rannsóknin að því rekja sölu ólöglegs afla og þvætti á peningum sem fást fyrir hann.
Rannsóknin felst í því að greina gögn norsku fiskistofunnar um landanir og bera þau saman við gögn um framleiðslu og útflutning á sjávarafurðum. Einnig verða skattaskýrslur og gögn um rekstrarútgjöld fyrirtækja skoðuð og óeðlileg frávik könnuð.
Rannsóknin beinist ekki síst að ofveiði á þorsk, síld og makríl, sem eru mikilvægar útflutningstegundir fyrir norskan sjávarútveg. Samkvæmt yfirvöldum er freistingin til ofveiði mest þegar verð er hátt í samanburði við aðrar tegundir og þegar skipin eiga lítinn kvóta eftir.
Kjell Ingebrigtsen, framkvæmdastjóri heildarsamtaka í norskum sjávarútvegi, (Norges Fiskerlag), segir að ástandið sé orðum aukið. Á síðasta ári hafi komið upp 83 mál þar sem grunur lék á um misferli. Einungs 15 þessara mála enduðu fyrir dómstólum. Ingebrigtsen segir að með aðgerðum sínum máli yfirvöld upp dökka mynd norskum sjómönnum.