Norska sjávarafurðaráðið, Norges sjømatråd, hefur hrundið af stað markaðsherferð í Englandi fyrir norskar þorsk- og ýsuafurðir sem beinist að því að auka neyslu fisks á heimilum Breta. Markaðsherferðin gengur undir heitinu Explore og innifelur mikla auglýsingaherferð á auglýsingaskiltum við umferðarþunga staði, í fjölmiðlum, samfélagsmiðlum og með liðsinni áhrifavalda. Herferðin stendur yfir í október og fram í miðjan nóvembermánuð.

Markmiðið með herferðinni er að hvetja til neyslu á þorski og ýsu frá Noregi með einfaldri eldamennsku á heimilum fólks.

Lítil neysla heima fyrir

Í frétt vefmiðilsins www.thefishingdaily.com segir að meirihluti fiskinnkaupa breskra neytenda sé í smásöluverslun en margar hindranir mæta þeim þó í fiskneyslu. Þar á meðal sé lítil tiltrú þeirra á eigin getu í meðhöndlun á fiskmeti og kunnáttuleysi í eldunaraðferðum. Afleiðingar þessa séu þær að Bretar neyti enn einungis helmings af því magni fisks sem heilsu- og næringarfræðingar mæla með.

Á sama tíma hafi mataræði almennings verið að breytast. 49% alls þess matar og drykkja sem keyptir eru tengjast heilsusamlegri lífsháttum og sjálfbærni í matvælaframleiðslu. Neytendur þurfi einfaldlega leiðsögn og hvatningu þegar kemur að því að elda fisk heima hjá sér.

Markaðsherferð Norska sjávarafurðaráðsins á að ná til yfir 30 milljóna neytenda í gegnum fjölmiðla af ýmsu tagi, eins og auglýsingaskiltum á fjölförnum stöðum um alla London, borgaðar auglýsingar í stafrænum miðlum og með liðsinni áhrifavalda á samfélagsmiðlum. Þá verður sjónum sérstaklega beint að norskum hvítfiski í verslanakeðjunum Asda, Waitrose og Sainsbury‘s með áherslu á einfaldleika þess að matreiða fiskinn heima.