Guðmundur Stefán Valsson, fiska- og sjávarlíffræðingur hjá félaginu Laxósi, segir að með því að ala lax lengur í landi en nú er gert áður en hann er settur í sjókvíar megi hindra uppgang laxalúsar. Það dragi einnig verulega úr líkum á laxastroki.

„Það hefur verið ákveðin þróun í gangi í laxaheiminum. Menn hafa verið að ala fiskinn lengur og lengur á landi,“ segir Guðmundur Valur. Laxalús þurfi tíma til að ná sér á strik. „Þú getur alið laxinn svo lengi á landi að laxalúsin tapar í þeirri baráttu að verða vandamál.“

Guðmundur Valur bendir á að ef lax sé alinn upp í 1,5 til 2,5 kíló á landi og settur út að vori sé honum öllum slátrað fyrir áramót. Í dag séu sett út laxaseiði allt niður í eitt hundrað grömm. Þessir fiskar þurfi að vera yfir tvo vetur í sjó. „Líkurnar á stroki minnka eftir því sem fiskurinn er skemur í sjónum og það er meiri hætta á stroki á haustin og á veturna,“ segir hann.

Ófrjór lax ekki raunhæfur enn

Guðmundur Valur Stefánsson. Mynd/Aðsend
Guðmundur Valur Stefánsson. Mynd/Aðsend

Guðmundur Valur segir eldi á ófrjóum laxi, til að koma í veg fyrir erfðablöndun við villta stofna, eitt af því sem fulltrúar Laxóss hafi rætt er þeir gengu á fund bæjarráðs Fjallabyggðar til að fylgja eftir erindi félagsins til sveitarfélaga við Eyjafjörð.

„Við bentum á að það að setja út svokallaðan ófrjóan lax er ekki raunhæft með tækni dagsins í dag,“ segir Guðmundur Valur.  Sömuleiðis myndi ófrjór lax engu breyta um lúsina. „Þetta gengur út á að losna við vandamálið af laxalús og vandamál vegna þess að laxar strjúki og blandi genum við villta stofna.“

Guðmundur Valur undirstrikar að miklu hagkvæmara sé að ala lax í sjó en á landi. „En ef fiskurinn er tvö kíló þegar hann fer út og sex kíló þegar honum er slátrað eftir um sjö mánuði í sjó þá er laxalúsin úr sögunni,“ segir hann.

Vilja gera tilraun á Eyjafirði

Spurður um viðbótarkostnað af því að ala laxinn lengur á landi segir Guðmundur Valur að á móti komi að laxalúsavandinn sé orðinn svo dýrkeyptur að sparnaður þar vegi upp útgjöldin í landi.

Laxós er með leyfi til seiðaeldis á Árskógssandi og er að sögn Guðmundar Vals með umsóknir í gangi fyrir landeldi annars staðar í Dalvíkurbyggð. Félagið sé reiðubúið að vinna eftir fyrrgreindri aðferðafræði.

„Við myndum gjarnan vilja gera tilraunir með þetta einhvers staðar á bilinu norðan við Hjalteyri og út að miðri Hrísey,“ segir Guðmundur Valur. Næst sé hins vegar að burðarþolsmeta Eyjafjörð eins og bæjarráð Fjallabyggðar hafi ítrekað að mikilvægt sé að gera