Íslensk stjórnvöld hafa í hyggju að setja af stað aðgerðaráætlun til að fá íslenska skipastólinn til að nota repjuolíu á aðalvélar sínar. Markmiðið er að notuð verði 5-10 prósent íblöndun af íslenskri repjuolíu í flotanum.
Þetta kemur fram í svari Sigurðar Inga Jóhannsonnar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, við fyrirspurn frá Silju Dögg Gunnarsdóttur um sjálfbæra ræktun orkujurta.
Ráðherra segir að hann muni á næstunni kalla saman sérfræðinga á þessu sviði til skrafs og ráðagerða um hvernig best væri að slík aðgerðaáætlun mundi nýtast í verkefnið,“ segir í svarinu. „Stefnt er að því að starfshópur verði skipaður sem fyrst og að fyrstu drög liggi fyrir í árslok.“
Fram kemur að ráðherra styðji verkefni um sjálfbæra ræktun orkujurta á Íslandi, sem unnið hefur verið að í meira en áratug á vegum Samgöngustofu, áður Siglingamálastofnun, í samvinnu við nokkur fyrirtæki, háskóla og tvö bú hér á landi.
Í samræmi við stefnu stjórnarinnar
Sigurður segist ætla „að sjá til þess að þetta rannsóknarverkefni haldi áfram enda er það hluti af áhersluatriðum stjórnvalda til að mæta losunaráhrifum samkvæmt Parísarsamkomulaginu sem og aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum.“
Í svarinu kemur fram að rannsóknir á ræktun repju sem orkujurtar og notkun lífdísils hafi „sýnt að hægt er að framleiða hér á landi lífdísil úr repjuolíu sem nýta má sem eldsneyti á þorra þeirra véla sem gerðar eru fyrir dísilolíu úr jarðolíu. Þegar litið er til markmiða um sjálfbærni í orkuframleiðslu og loftslagsmarkmiða er þetta ótvírætt góður kostur.“
Þá segir ráðherra að útgerðarfyrirtækið Skinney-Þinganes hafi ákveðið að vinna áfram að tilraunaverkefni, sem unnið er í samstarfi við Samgöngustofu og verkfræðistofuna Mannvit, þar sem fyrirtækið notar eigið kúabú á Flatey á Mýrum til repjuræktar.
Fyrirtækið er þar að rækta eldsneyti á eigin fiskiskip og stefnir að því að allt eldsneyti fiskiskipa fyrirtækisins verði hrein repjuolía í framtíðinni.
Dygði til að knýja allan flotann
Sigurður fullyrðir í svari sínu að unnt sé „að framleiða á Íslandi næga repjuolíu fyrir eldsneyti á skipaflota landsmanna. Það mundi ekki ógna matvælaframleiðslu í landinu.“
Alls er talið að um 600 þúsund hektarar, eða sex prósent af heildarflatarmáli landsins, sé gott ræktunarland.
„Þar af eru þegar í ræktun um 120.000 hektarar. Enn er því ónotað ræktunarland um 480.000 hektarar. Með sérstöku átaki mætti nota það til að framleiða alla þá olíu sem íslenski skipaflotinn notar. Slík ræktun mundi ekki raska framleiðslu á matvælum því þessi landsvæði eru ekki í notkun í dag. Því er repjurækt nýr möguleiki í landbúnaði á Íslandi samhliða annarri ræktun.“
Fiskifréttir hafa töluvert fjallað um þetta verkefni áður og rætt við Jón Bernódusson hjá Samgöngustofu, sem hefur haft forgöngu um þetta verkefni.