Samkvæmt athugun Alþjóðasamtaka kvenna í sjávarútvegi eru konur 14,4 prósent stjórnarmanna í 100 stærstu sjávarútvegsfyrirtækjanna.
Víetnamska sjávarútvegsfyrirtækið Vinh Hoan er eina fyrirtækið á listanum yfir 100 stærstu sjávarútvegsfyrirtæki heims sem er með konur í meirihluta þeirra sem fara með æðstu stjórn fyrirtækisins. Aðalframkvæmdastjórinn er kona og tíu af tólf meðstjórnendum hennar eru konur.
Alþjóðasamtök kvenna í sjávarútvegi, Women in the Seafood Industry (WSI), hafa birt niðurstöður athugana sinna á hlutfalli kvenna í stjórnendastöðum stærstu sjávarútvegsfyrirtækjanna árið 2019.
Þar kemur fram að í þriðjungi þessara fyrirtækja eru einungis karlar í æðstu stjórnendastöðum, og að einungis í 5% þeirra eru hlutfall kvenna yfir 40% í æðstu stjórnendastöðum. Að meðaltali eru konur aðeins 4% þeirra sem stýra starfsemi stærstu sjávarútvegsfyrirtækja heims.
Upplýsingar ekki alltaf á lausu
Upplýsingar um stjórnendastöður í 100 stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum heims eru misjafnlega aðgengilegar. Einungis 80 þeirra gefa upp nægilega miklar upplýsingar til að hægt hafi verið að vinna með þær í þessari könnun.
Í þessum 80 fyrirtækjum eru stjórnarmenn samtals 1.042 og af þeim eru einungis 150 konur, eða 14,4%. WSI benda þó á að þarna hafa orðið framfarir því árið 2016 var þetta hlutfall 9,1%, og þá voru upplýsingar um 71 fyrirtæki af samtals 100 aðgengilegar.
Þá benda WSI á að árið 2016 voru konur innan við 20% í æðstu stjórnendastöðum í 81% fyrirtækjanna en árið 2019 var þetta hlutfall komið niður í 64%.
Noregur í fararbroddi
Noregur varð árið 2003 fyrst landa til þess að lögfesta kynjakvóta fyrir stjórnir í fyrirtækjum. Þar er fyrirtækjum skylt að sjá til þess að ekki færri en 40% stjórnarmanna séu konur.
„Að mörgu leyti er Noregur í fararbroddi þegar kemur að kynjajöfnuði í atvinnulífinu,“ segir í frásögn WSI, en þó komi aðeins önnur mynd í ljós þegar skoðað er hlutfall kvenna meðal framkvæmdastjóra norsku fyirtækjanna. Þar er hlutfallið mun lægra en meðal stjórnarmanna, eða frá 0% og upp í 33%.