Stjórn Landssambands íslenskra útvegsmanna fordæmir þau vinnubrögð sem sjávarútvegs- og landbúnaðrráðherra viðhafði í aðdraganda og við útgáfu nýlegrar reglugerðar um takmarkanir á dragnótaveiðum.
Reglugerðin gildir til fimm ára frá og með 1. september næstkomandi og tekur til sjö fjarða.
Í ályktun stjórnar LÍÚ segir m.a.: ,,Engin vísindaleg rök liggja að baki þessari nýju reglugerð. Ekkert tillit var tekið til nýlegrar skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar um rannsóknir í Skagafirði en þar segir að ekkert bendi til þess að dragnót hafi áhrif á botndýralíf. Ekkert tillit var heldur tekið til athugasemda dragnótamanna og annarra hagsmunaaðila, sem lögðust gegn þessum hugmyndum. Ráðherra kallar þetta í tilkynningu „að fara bil beggja."
Og síðar segir: ,,Það alvarlegasta í málinu er þó að hér er um verulega íþyngjandi takmarkanir að ræða sem ógna atvinnu og forsendum byggðar í fámennum sveitarfélögum. Stjórn Landssambands íslenskra útvegsmanna skorar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að draga ákvörðun sína til baka.”