„Ég segi gjarnan á alþjóðavettvangi, og er stoltur af því, að það sé að minnsta kosti á einu sviði sem Íslendingar rústa öllum öðrum í samkeppni þannig að miklu munar. Við erum með langöflugasta og best rekna sjávarútveg í heiminum. Framlegðin í sjávarútvegi annars staðar er hvergi jöfn því sem er hér.“

Þessi orð lét Steingrímur J. Sigfússon atvinnvegaráðherra falla í ræðustóli á aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva í síðustu viku er hann svaraði fyrirspurnum fundarmanna. Sveinn Hjörtur Hjartarson, hagfræðingur LÍÚ, hafði spurt Steingrím hvort sú jákvæða mynd sem ráðherrann drægi upp af stöðu sjávarútvegs væri ekki á skjön við þá umræðu sem ætti sér stað í þjóðfélaginu og í stjórnmálunum.Nánast væri litið á þá sem starfa í sjávarútvegi sem glæpamenn.

Steingrímur tók undir þetta og sagði að sér þætti umræðan um sjávarútvegsmál hafa verið ákaflega dapurleg á löngum köflum. „Þar eiga margir sök, ekki aðeins orðhákar í stjórnmálastétt. Ég held að sjávarútvegurinn verði að horfa í eiginn barm; hvernig hann hefur staðið sig í málflutningi og hagsmunagæslu,“ sagði Steingrímur.

„Deilurnar um kvótakerfið hafa ekki verið góðar fyrir greinina af mörgum ástæðum. Margir í minni stétt hafa farið stórkostlega offari. Umræðan er líka vond af þeirri ástæðu að hún hefur hrokkið í það far að snúast aðeins um það hverjir megi veiða og í hvað kerfi. Menn gleyma sér í rifrildi um kvótann en tala ekki um fiskvinnslu og greinina í heild,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon ennfremur.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum

.