Búlandstindur er í jafnri eigu Ósness, Fiskeldis Austfjarða og Laxa Fiskeldis, sem reyndar sameinuðust í eitt fyrirtæki fyrr á árinu og er nú í eigu Ice Fish Farm sem var móðurfélag Fiskeldis Austfjarða. Ice Fish Farm er í meirihlutaeigu norska fyrirtækisins Måsøval. Eftir því sem heimildir herma stefnir í að Búlandstindur renni inn í hið sameinaða félag.

Fyrsta heila árið, 2015, voru unnin 300 tonn af laxi hjá Búlandstindi og voru starfsmenn 30 talsins. Meðfram því hefur verið unninn bolfiskafli en Búlandstindur fékk 3.000 tonna byggðakvóta þegar Vísir hætti starfsemi á staðnum. Ósnes gerir út línubátana Sunnutind og Öðling á bolfiskveiðar. Afurðirnar eru að stærstum hluta saltfiskur.

  • Stóra stökkið verður á næsta ári þegar ráðgert er að 30 þúsund tonn af laxi fari í gegnum vinnsluna hjá Búlandstindi. Aðsend mynd

Árið 2020 var slátrað 9 þúsund tonnum af laxi hjá Búlandstindi og 17 þúsund tonnum á síðasta ári. Þessi mikla framleiðsluaukning hefur tekið á en með mikilli tæknilegri uppbyggingu og faglegu utanumhaldi hefur allt gengið upp. Stóra stökkið verður á næsta ári þegar ráðgert er að 30 þúsund tonn af laxi fari í gegnum vinnsluna hjá Búlandstindi.

Laxeldi hófst í Berufirði árið 2003 á vegum Salar Islandica og fyrstu árin sá Vísir um slátrunina. Nú er lax alinn í Berufirði, Fáskrúðsfirði og Reyðarfirði og er leyfi fyrir 36.800 tonna eldi, þar af 2.300 tonn af ófrjóum fiski.

Afkastageta Búlandstinds í laxaslátrun er um 60 laxar á mínútu sem jafngildir um 120 tonnum á dag. Brunnbátar leggjast við kvíar í fjörðunum þremur og dæla fiskinum um borð þar sem honum er haldið lifandi. Siglt er með fiskinn til Djúpavogs og honum dælt lifandi inn í vinnsluna hjá Búlandstindi. Þar fer fiskurinn í gegnum vél sem deyfir hann með rafstraum. Þá er hann blóðgaður. Þaðan fer hann í blæðingartank þar sem hann er að minnsta kosti í hálftíma. Þá tekur við slæging í fjórum slægingarvélum. Í framhaldinu er hann kældur niður í mínus 1,5° C. Úr ofurkælingartanknum fer fiskurinn á band þar sem hver einasti fiskur er skoðaður með tilliti til galla. Gallalaus fiskur fer í svokallaðan „superieur-flokk“. Markmið Búlandstinds er að 95% allra afurðanna fari í „superieur-flokk“. Hæst hefur hlutfallið verið 99% en svo koma tímar sem það er undir markmiðunum.

Afkastaaukning framundan

Kristján Ingimarsson vinnslustjóri segir fiskinn sem hefur verið slátrað  á þessu ári í fremur lökum gæðum. Yfir köldustu mánuðina getur eldisfiskur í sjókvíum fengið svokölluð vetrarsár sem ákveðin baktería veldur. Markmiðið hjá öllum eldisfyrirtækjum er að forðast að þessi staða komi upp því fiskurinn getur fallið niður í annan gæðaflokk og um helmingi lægra verð fæst fyrir hann. Þegar þetta var skrifað fengust um níu evrur fyrir kílóið í fyrsta flokki, nálægt 1.300 krónur. Fimm kílógramma slægður lax með haus er því að gefa af sér um 6.500 krónur.

  • Kristján Ingimarsson vinnslustjóri hjá Búlandstind á Djúpavogi. Mynd/gugu

„Enn þá höfum við ekki farið út í frekari vinnslu. Ástæðan er sú að framleiðslan hefur ekki verið stöðug. Það koma tímabil sem framleiðslan er mikil og önnur þegar hún er minni. Ætli fyrirtæki sér að vera í flakavinnslu og útvega viðskiptavinum þær afurðir með reglubundnum hætti þarf hráefnisframboðið að vera jafnt og þétt allt árið. Afhendingaröryggið skiptir miklu máli. En eftir næsta sumar lítur út fyrir að við verðum komnir á þann stað að stöðugra framboð verður af hráefni og það gæti opnað fyrir frekari vinnslu,“ segir Kristján.

Í vinnslusalnum er laxaflökunarvél og ákveðið rými í salnum hefur verið tekið frá fyrir flakavinnsluna. Einnig eru hugmyndir um flakafrystingu og frystingu á heilum laxi. Mikið hagræði yrði samfara því að flytja út unna vöru. Eins og nú háttar til er verið að flytja út og borga frakt fyrir hausa og bein sem er um fjórðungur af þyngd fisksins. Fullvinnsla á laxi á Íslandi er lítil enn sem komið er.

Framundan er hins vegar hjá Búlandstindi að auka afköstin mikið og verður það að stærstum hluta gert með aukinni sjálfvirknivæðingu. Þar einkum horft til aukinnar sjálfvirknivæðingu við blæðingu. Á næstu mánuðum er stefnt að því að ná vinnslunni upp í 70 fiska á mínútu sem þýðir 150-160 tonn á dag.