Stefnt er að því að hefja loðnuleit og loðnumælingu eftir næstu helgi, að því er Þorsteinn Sigurðsson sviðsstjóri á Hafrannsóknastofnun tjáði Fiskifréttum í dag. Auk rannsóknaskipanna Árna Friðrikssonar og Bjarna Sæmundssonar mun grænlenska veiðiskipið Polar Amaroq taka þátt í mælingunni.
Upphaflega stóð til að veiðiskipin Venus og Víkingur myndu forleita svæðið áður en mælingin sjálf hæfist en verkfall sjómanna kemur í veg fyrir það. Einnig var gert ráð fyrir að Heimaey myndi taka þátt í mælingunni auk hinna skipanna þriggja en af því getur ekki orðið af sömu ástæðu.
Veðurspá er slæm fyrir næstu daga og því óráðlegt að halda til mælinga fyrr en eftir helgina. Mælingin mun taka vikutíma ef veður verður skaplegt en annars getur hún dregist á langinn.