Jarðvegsframkvæmdir eru í fullum gangi á vegum ILFS (Icelandic Land Farmed Salmon) í Viðlagafjöru í Vestmannaeyjum en þar stendur til að reisa landeldisstöð á laxi með framleiðslugetu upp á 15 þúsund tonn á ári. Lárus Ásgeirsson, stjórnarformaður ILFS, segir að öll leyfi séu í höfn og viðræður eru í gangi sem eiga að tryggja fyrirtækinu orku til starfseminnar.

Unnið hefur verið að undirbúningi verkefnisins undanfarin fjögur ár og hefur umhverfismat farið fram sem leyfir 15 þúsund tonna framleiðslu.

Lárus var fulltrúi ILFS á Seafood Expo sjávarútvegssýningunni í Barcelona í síðustu viku þegar blaðamaður þefaði hann uppi. Lárus sagði tilganginn með veru fyrirtækisins þar að kynna verkefnið með samtali við hugsanlega fjárfesta og banka sem og að kynna það gagnvart framtíðar kaupendum. Enn fremur sé tilgangurinn sá að koma á samskiptum við framleiðendur ýmissa tæknilausna sem tengjast fiskeldi.

Lárus Ásgeirsson, stjórnarformaður ILFS. MYND/GUGU
Lárus Ásgeirsson, stjórnarformaður ILFS. MYND/GUGU

Hrogn í klak í nóvember

Einn af fjárfestunum í ILFS er Sigurjón Óskarsson og fjölskylda sem nýlega gekk frá samningum um sölu á útgerðarfélaginu Ós ehf. og fiskvinnslunni Leo Seafood til Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum. Ós ehf. gerði út Þórunni Sveinsdóttur VE. Bygging nýs frystihús fyrir Leo Seafood var langt komin áður en til sölunnar kom og halda þeir þeirri eign sem gengur inn í ILFS. Þar verður núna í vor komið upp eldisbúnaði fyrir klak og áframeldi á seiðum.

„Við gerum ráð fyrir að taka inn hrogn í klakstöðina í október eða nóvember á þessu ári sem fá þar að dafna og vaxa upp í 100 grömm þegar þau verða flutt í áframeldi í kvíar í Viðlagafjöru. Þar eru núna hafnar jarðvegsframkvæmdir og margháttaður undirbúningur fyrir áframeldið,“ segir Lárus.

Hámarks framleiðslugeta 30.000 tonn

Í Viðlagafjöru er nú verið að ganga frá pípu- og raflögnum og í framhaldinu hefjast framkvæmdir við uppsteypu á tönkum. Áformað er að hægt verði að taka inn seiði í stöðina haustið 2024. Bein fjárfesting við fyrsta áfanga landeldisstöðvarinnar er um níu milljarðar króna. Þar við bætist kostnaður við lífmassa og rekstur en áætlað er að fyrsta slátrun verði á árinu 2026. Framleiðslan verður þá orðin 7.000 tonn af laxi en stefna ILFS er að byggja nýja einingu á hverju ári. Hver eining er átta tankar og hver tankur er 5 þúsund rúmmetrar. Stefnt er að því að byggja 6 slíkar einingar og að tankarnir verði að endingu samtals 48 og framleiðslugetan þá komin upp í 30 þúsund tonn af laxi.

Klakstöð ILFS verður í húsi sem áður var ætlað Leo Seafood í Friðarhöfn.
Klakstöð ILFS verður í húsi sem áður var ætlað Leo Seafood í Friðarhöfn.
© Óskar P. Friðriksson (Óskar P. Friðriksson)

Tveir raforkustrengir til Eyja

ILFS er í viðræðum við orkufyrirtæki um raforku til fyrirtækisins og Lárus segir að bundnar séu vonir við að lagðir verði tveir nýir rafstrengir til Eyja.

„Með tveimur strengjum yrðum við með svipað afhendingaröryggi og önnur byggðarlög á Íslandi. Við sjáum ekki fram á vandræði með innviði fyrir starfsemina, hvorki ferskvatn né rafmagn. Við verðum líka með varaaflstöðvar ef annað þrýtur,“ segir Lárus.

Viljayfirlýsing við bændur

Mikil uppbygging er á landeldi við Þorlákshöfn þar sem Landeldi hf. og Geo Salmo ætla að reisa annars vegar 32.000 tonna og 24.000 tonna landeldisstöðvar auk þess sem Samherji er að hefja undirbúning að byggingu 40.000 tonna landeldisstöðvar nærri Reykjanesvirkjun. ILFS ásamt þessum fyrirtækjum hafa sammælst um að nýta úrgang frá framleiðslunni til áburðarframleiðslu í samstarfi við bændur á landinu.

„Við höfum undirritað viljayfirlýsingu um samstarf við samtök bænda um að skoðað verði að reisa verksmiðju til þess að framleiða áburð úr úrganginum sem verður til í laxeldi og húsdýraeldi. Gangi allt eftir gætum við væntanlega framleitt áburð sem gæti komið alfarið í stað innflutts áburðar. Þetta er hluti af þessu hringrásarkerfi sem landeldið býður upp á. Það býður upp að nýttir séu allir straumir, hvort sem það er úrgangur eða hliðarafurðir,“ segir Lárus.

Tölvugerð mynd af landeldisstöð ILFS í Viðlagafjöru.
Tölvugerð mynd af landeldisstöð ILFS í Viðlagafjöru.