Ísland ásamt Bandaríkjunum, Kína, Japan, Rússlandi og fleiri þjóðum hyggjast efna til samstarfs um rannsóknir á fiskveiðum í Norður-Íshafi með þeim tilgangi að reyna að koma á alþjóðlegum reglum um slíkar veiðar og sporna gegn ofveiði.

Sagt er frá þessu í vefútgáfu Nikkei Asia í Japan.  Auk fyrrgreindra þjóða er í hópnum Kanada, Danmörk, Noregur og Suður-Kórea. Í fréttinni segir að fulltrúar þessara níu landa ásamt fulltrúum Evrópusambandsins ætli að koma saman til undirbúningsfundar í Suður-Kóreu snemma á næsta ári og ræða þar um fiskveiðikvóta sem byggist á svipuðum alþjóðareglum um önnur svæði. Alþjóðlegt samkomulag hefur verið um fiskveiðar í Suður-Íshafinu allt frá árinu 1959 þegar Suðurskautssamningurinn var undirritaður í Washington.

Upphafspunkturinn verður að komast að samkomulagi um reglur um tilraunaveiðar sem taki gildi strax á næsta ári og verði svo fylgt eftir með reglum um sjálfbærar veiðar á svæðinu. Í júní á þessu ári gekk í gildi alþjóðlegt samkomulag um bann við eftirlitslausum fiskveiðum í Norður-Íshafi.

Það vekur vonir um árangur á fleiri sviðum á þessu hafsvæði að þau þrjú ríki sem telja sig eiga mestra hagsmuna að gæta, Bandaríkin, Kína og Rússland, verði þátttakendur í samstarfinu. Á þessari öld hefur hlýnun valdið því að 40% íshellunnar á Norður-Íshafi hefur bráðnað og þar með opnast fyrir fiskveiðar á svæðum sem áður voru lokuð af náttúrulegum völdum. Þess vegna þykir ríða mikið á að settar verði alþjóðareglur sem taki á óheftum veiðum.