Engin kræklingarækt hefur verið stunduð á Íslandi frá því hún lagðist niður endanlega árið 2022. Ástæður þess að hún lagðist af voru einkum hindranir sem kræklingaræktendur á Íslandi hafa ávallt staðið frammi fyrir. Kjartan Þór Ragnarsson, verkefnastjóri hjá Reykhólahreppi og nýkjörinn formaður Skelræktar, segir að með réttum aðferðum og stefnubreytingu af hálfu hins opinbera mætti stórefla kræklingarækt allt í kringum landið. Við strandsvæði Íslands séu kjöraðstæður til ræktunar vegna hreinleika sjávar og mikillar framleiðslu smáþörunga sem kræklingur nærist á.
Kjartan segir hindranirnar fyrst og fremst felast í afskiptaleysi stjórnvalda gagnvart greininni og að greining sýna er framkvæmd erlendis á kostnað ræktenda. Niðurstöður sýnatöku hafi borist í besta falli fimm dögum eftir að sýni voru send að utan sem Kjartan segir heilmikla hindrun þar sem uppskeru heimildir eru 7-10 dagar yfir vor- og sumarmánuði. Það er því lítill tími til uppskeru og viðbragða.

„Svo er það náttúrulega sú staðreynd að allur kostnaður við það mikla eftirlit sem þarf að vera með greininni, þ.e. heilnæmiskannanir, sjósýnatökur á þörungaeitri og sýnatökur á krækling sem búist er við í uppskeru, fellur á ræktendurna sjálfa. Þetta getur verið meirihluti af öllum rekstrarútgjöldum þeirra. Víðast í Evrópu er þessi kostnaður greiddur af hinu opinbera að hluta eða öllu leiti. Þessi mikli kostnaður og skortur á fyrirsjáanleika vegna fyrirkomulags sýnatökunnar hefur gengið að kræklingaræktinni dauðri hér á landi,“ segir Kjartan.
150.000 kr. á sýni
Kostnaður ræktenda við sýnatöku og greiningu þegar kræklingarækt var stunduð hérlendis var um 150.000 kr. fyrir hvert sýni. Niðurstöðurnar voru svo stundum þær að ekki var hægt að nýta kræklinginn vegna of hárra gilda af þörungaeitri. Þá höfðu ræktendur takmarkaðan tíma til að taka önnur sýni af öðrum ræktunarsvæðum, líka upp á von og óvon. Fyrir þá skiptir stöðugleiki í framleiðslunni öllu máli. Kjartan segir að færi greining á sýnum fram innanlands fengjust niðurstöður úr þeim á innan við einum sólarhring. Alveg frá því kræklingarækt hófst fyrst hér á landi upp úr síðustu aldamótum hefur verið beðið eftir stefnumótun stjórnvalda um greinina. Að hún yrði byggð upp líkt og gert var með laxeldi á sínum tíma í samstarfi fyrirtækja og ríkisins. Ekkert bólar á stefnumótuninni. Yrði greitt úr þeim hindrunum sem að framan greinir og hið opinbera markaði stefnu í málefnum kræklingaræktar gæti orðið um afar blómlegan atvinnuveg á Íslandi að ræða, að mati Kjartans.

Kjartan fer fyrir samráðshóp sem vinnur að endurreisn kræklingaræktar. Samráðshópurinn hefur verið í samtölum við hið opinbera um kostnaðarþátttöku ríkis í aðgerðum sem ætlaðar eru til þess að endurreisa kræklingaræktina. Einkum þurfi að bregðast við tveimur atriðum með fjárframlögum úr ríkissjóði, sem eru að sýnagreining skeldýraeiturs fari fram innanlands og að ríkið taki þátt í kostnaði ræktenda við greiningar sýna.
Gríðarleg eftirspurn eftir kræklingi
„Eftirspurn eykst um 5% á ári eftir sjávarafurðum á heimsvísu og eftirspurn eftir kræklingi, sem er vannýtt auðlind hjá okkur, er gríðarleg. Dæmi er um lönd sem hafa farið úr engri framleiðslu yfir í það að verða stórveldi á þessu sviði. Þar má nefna Chile þar sem engin ræktun var árið 1990 en nú er ársframleiðslan þar um hálf milljón tonn. Eins er með Nýja-Sjáland sem fór úr um 20.000 tonnum í um 100.000 tonn á tæpum áratug. Þar sem svona háttar til hefur það verið gert með samstarfi fyrirtækja og stjórnvalda og með heildstæðri stefnumörkun.“
Sé litið til Írlands, þar sem talverð kræklingarækt er stunduð, skapa hver 1.000 tonn í framleiðslu 12-17 bein störf og auk þess afleidd störf til viðbótar. Kjartan segir að það blasi við tækifæri að byggja upp kræklingarækt sem atvinnuskapandi starfsemi út um allt land en það sem stendur í vegi fyrir þessu er sýnataka og greining á sýnum, þjálfun starfsfólks á þessu sviði, að komið sé til móts við kostnað ræktenda á sýnatöku og greiningu og almenn stefnumótun.
Engar upplýsingar um skeldýraeitur eftir að ræktun lagðist af
Samráðshópurinn sendi fjárlaganefnd Alþingis minnisblað um endurreisn kræklingaræktar fyrir síðustu þinglok. Minnisblaðið var undirritað af fulltrúum stjórna fjölda sveitarfélaga og landshlutasamtaka. Þar kom m.a. fram að kostnaður hins opinbera af þessu er óverulegur í samhengi við þann ávinning sem gæti orðið af þessari atvinnugrein. Sýnatökutækið sjálft kostar innan við 50 milljónir króna og það myndi nýtast til greiningar á skeldýraeitri og við margs konar annað matvælaeftirlit hjá MATÍS. Kostnaðurinn við hverja sýnatöku væri metinn á um 220.000 kr. að teknu tilliti til þjálfunar og faggildingar tækja. Þegar kræklingarækt var stunduð hérlendis greiddu fyrir greiningu á 25-30 sýnum á ári. „Við mátum þetta þannig að kostnaður inn við 100 sýni væri um 22 milljónir króna. 75 af sýnunum yrði frá ræktendum sem eru í aðstöðu til að hefja ræktun nú þegar og önnur 25 sýni em væru hugsuð í þágu almannaöryggis. Hingað til hafa eftirlitsstofnanir eins og MAST og Hafró treyst á sýnatöku ræktenda til að meta hættuna sem almenningi stafar af skeldýraeitri í kræklingum í fjörum landsins. Nú þegar engin ræktun er í gangi liggja engar rannsóknir fyrir. Fólk fer í fjörur og týnir skel og ef engar upplýsingar liggja fyrir um hugsanlega eitrun í kræklingi þá flokkast það undir almannaöryggismál,“ segir Kjartan.

Úr nýsköpun í iðnað
Auk þessa þyrfti, áður en ræktun hefst, að heilnæmiskanna svæði þar sem ræktun er fyrirhuguð. Það er ferli sem tekur eitt ár og kannað er hvort eiturefni eða þungamálmar séu á tilteknum svæðum ásamt ýmsu öðru. Hingað til hafa svæði sem hafa verið heilnæmiskönnun hér við land komið út í hæsta gæðaflokki. Ísland er eina landið í Evrópu þar sem þessi kostnaður leggst á ræktendur í stað hins opinbera. Ræktun gæti farið fram í öllum fjörðum landsins þar sem ágangur sjávar er undir ákveðnum mörkum. Kjartan segir að sé vel að þessu staðið gæti þetta vaxið úr lítilli nýsköpunarræktun yfir í stóran iðnað. Sumir telja að þegar fram í sækir geti kræklingarækt orðið álíka arðsöm og laxeldi er nú orðið á Íslandi. Nokkur hundruð þúsund tonna ræktun gæti verið raunhæft markmið ef málið er unnið áfram af festu og ábyrgð með samstarfi ræktenda og stjórnvalda. Í kræklingarækt gætu falist mikil tækifæri fyrir brothættar byggðir allt í kringum landið þar sem bæði hefðbundin sjósókn og landbúnaður á undir högg að sækja. Kjörsvæði fyrir ræktun eru m.a. í innanverðum Breiðafirði þar margir aðilar hafa áhuga að endurverkja ræktun en, sem fyrr segir, eru fjölmörg svæði allt í kringum landið sem henta vel til ræktunar.