Að sögn Guðmundar J. Óskarssonar, sviðsstjóra uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar, er stefnt að því að birta niðurstöður loðnuleitarinnar nú á föstudag, 3. febrúar.

Ekki er þó víst að það verði endanleg ráðgjöf ársins sem út úr þeim reikningum kemur, því vegna hafíss náðist ekki að kanna almennilega svæðið norðvestur af landinu. Stefnt er hefja aðra yfirferð um það svæði í lok næstu viku.

„Það voru vissulega vandamál með ísinn hérna vestan til. Við náðum ekki alveg þeirri yfirferð þar sem við vorum að vonast eftir. Bæði út af veðri sem var að setja strik í reikninginn síðustu dagana, en fyrst og fremst var það ísinn,“ segir Guðmundur.

Mögulega sé von á loðnu þar, norðvesturgöngu kannski, en Guðmundur segir engan tilgang í því að kanna það fyrr en að nokkrum tíma liðnum.

„Við erum að miða við 10. febrúar.“

Svæðið sem skipin fimm fóru yfir í loðnumælingunni í síðustu viku. Hafísinn hamlaði för í norðvestri. MYND/Hafrannsóknastofnun
Svæðið sem skipin fimm fóru yfir í loðnumælingunni í síðustu viku. Hafísinn hamlaði för í norðvestri. MYND/Hafrannsóknastofnun

Endurskoðun möguleg

Útkoman úr þessari lokayfirferð gæti því gefið tilefni til þess að endurskoða ráðgjöfina aftur.

„En heilt yfir erum við ánægðir með yfirferðina núna. Við teljum okkur hafa náð yfir meginhluta stofnsins hérna austan og norðan lands í mælingu. Samstarfið gekk vel og sýnir enn og aftur hversu mikilvægt er að geta gert þetta á svona stuttum tíma, því veðurgluggar eru oft skammir.“

Hann segir ekkert óvænt hafa komið í ljós.

„Það var gott að hafa farið í þessa loðnukönnun á undan, þannig að við gerðum okkur nokkurn veginn grein fyrir því hvert loðnan var komin og hvar mesta magnið yrði. Það var þarna fyrir norðaustan land. En gangan var kannski að hluta til nær landi heldur en við áttum von á. Göngumynstrið var því ekki alveg hefðbundið, en ekki heldur óþekkt. Við sjáum að hún er á leiðinni austur, hún er komin það austarlega en fer að einhverju leyti yfir grunnin en líka með kantinum.“

Orðnir vanir að bíða

„Við erum orðnir öllu vanir þessir uppsjávarsjómenn. Við erum að verða vanastir því að bíða eftir loðnuvertíð,“ segir Jóhannes Danner, skipstjóri á loðnuskipinu Jónu Eðvalds SF. Jóna var eitt þriggja loðnuskipa sem tóku þátt í loðnumælingarleiðangri Hafrannsóknastofnunar í síðustu viku. Hin voru Ásgrímur Halldórsson SF og Heimaey VE.

„Leiðangurinn gekk bara í sjálfu sér vel. Nú erum við bara að bíða eftir niðurstöðunum og vonum að þær verði sem bestar. Ungloðnurannsóknirnar fyrir ári gáfu til kynna að það ætti að vera góður kvóti núna, þannig að þetta eru bara vonbrigði það sem komið er.“

Jóhannes Danner skipstjóri á Jónu Eðvalds SF
Jóhannes Danner skipstjóri á Jónu Eðvalds SF

Í mælingaleiðangrinum var siglt eftir fyrirfram ákveðnum leitarlínum og skiptu skipin með sér verkum. Í hlut Jónu Eðvalds kom að leita við kantinn út af Austfjörðum og norður undir Langanes.

„Þá er siglt bara ákveðið langt út frá kantinum og upp á hann aftur. Þannig að ef við sjáum loðnu einhvers staðar á leiðinni þá er það yfirleitt stutt belti því hún er yfirleitt að ganga með kantinum. Þess vegna sáum við kannski ekki mikið, þetta virtist nú ekki vera eiginleg ganga þarna suður frá. En það virðist samt vera loðna á blettum alveg eins langt og skipin náðu. Þetta virðist ætla að koma dreift að.“

Eins og fram kemur í spjalli við Guðmund J. Óskarsson hér á síðunni sást megnið af loðnunni fyrir norðan land.

Yfir 30 milljarðar

Eftir leiðangurinn fóru loðnuskipin þrjú öll til Eskifjarðar þar sem unnið var að því að kvarða mælana, eins og það heitir.

„Það er gert svo hægt sé að lesa rétt út úr þeim, svo menn væru ekki að bera saman epli og appelsínur. Ég held að það hafi verið eitthvað fjórir tímar á skip sem fóru í það. En núna bíðum við bara eftir því hvað kemur upp úr hattinum hjá þeim.“

Á vefnum Loðnufréttir kemur fram að nú er búið að veiða nærri hálft prósent af heildarkvóta vertíðarinnar, eða nærri 6.000 tonn af þeim alls 139.204 tonnum sem Íslendingar fá í sinn hlut. Loðnufréttir gerðu skoðanakönnun meðal lesenda sinna um áætlað verðmæti og voru flestir á því að niðurstaðan yrði um 30-35 milljarðar króna, sem er það sem Gunnþór Ingason forstjóri Síldarvinnslunnar hafði slegið á.