Noregur, Færeyjar og Grænland eru farin að deila með sér sjálfbærnivottunum. Kristinn Hjálmarsson, framkvæmdastjóri ISF segir að í raun og veru þyrfti þjóðirnar sem veiða í Norðaustur-Atlantshafi allar að vera með sameiginleg skírteini fyrir veiðar sínar, og deila þá með sér kostnaðinum.

„Við deilum til dæmis nú þegar loðnuskírteininu okkar með Noregi og Grænlandi. Og það þýddi að kostnaðurinn lækkaði töluvert þegar fleiri voru um að bera hann. Það sparaði þá líka tíma fyrir þau, því við vorum búin að fá vottunina okkar og þetta tekur 12-18 mánuði,“ segir Kristinn, og nefnir að þetta verklag geti heldur betur komið að gagni þegar hafið hlýnar frekar.

„Það má reikna með vaxandi framboði á tegundum sem eru að flýja hitann sunnar, og hvað ætlum við að gera í því.“

Hryggjarstykkið

„Svo er líka áhugavert að við sem erum í Norðaustur-Atlantshafi erum komin með ágætt samstarf milli þessara fyrirtækja sem eru eins og ISF í Noregi, Færeyjum og Grænlandi og erum einmitt að vinna að því að auka samvinnu okkar um vottanir og sjálfbærni. Saman erum við með eitthvað um 3-4 milljónir tonna á hverju ári sem koma úr sjálfbært vottuðum veiðum. Í heildina minnir mig að þetta séu um 12 milljónir tonna sem koma úr sjálfbært vottuðum veiðum, þannig að þetta er má segja ákveðið hryggjarstykki í MSC-vottuðu framboði í heiminum, sem koma frá svona fáum þjóðum.

Af þessum þremur löndum eru Norðmenn séu með um það bil tvær milljónir tonna, Íslendingar um milljón og svo töluvert minna í Færeyjum og Grænlandi.

„En þetta er sameiginlegt hafsvæði, og við erum líka að deila skírteini milli ISF og FISF sem er sambærilegt félag í Færeyjum. Þau hafa þá aðgang að okkar skírteinum fyrir sína línubáta, það sem þau veiða samkvæmt samningum. Á móti fá okkar skip sem hafa heimildir til að veiða í Barentshafi aðgang að þeirra skírteini á móti. Við borgum þá fyrir okkar og þau borga fyrir sitt, og svo deilum við aðganginum á milli.“

Grálúðan næst?

Næst er verið að skoða að fá sameiginlegt skírteini fyrir grálúðuna sem fer á milli íslensku og grænlensku lögsögunnar.

„Gullkarfinn gerir það líka, og keila minnir mig líka. En dýru tegundirnar eru gullkarfi og grálúðan, og það er mikill áhugi núna á að sjá hvort við getum ekki náð saman um að eiga þau skírteini saman. Þá sitjum við líka saman í súpunni með að reka skilyrðin, þar sem erfiðast hefur verið að gera milliríkjasamninga um hlutfallið sem hver veiðir. Þá erum við líka saman um að missa skírteinið og saman ábyrg fyrir því að halda sjálfbærri stöðu.“

ISF, eða Iceland Sustainable Fisheries, vinnur að því að sækja um sjálfbærnivottanir samkvæmt MSC-staðli fyrir íslenskar útgerðir.

Heimaey VE á loðnuveiðum. FF MYND/Jón Steinar Sæmundsson