Útlit er fyrir að þorskmarkaðir á alþjóðavísu verði áfram sterkir á þessu ári eftir töluverðar verðhækkanir á síðasta ári. Þá er útlit fyrir að heildarframboðið verði svipað og í fyrra eða um 1.132.000 tonn. Þar af stefnir í að hlutur Íslendinga verði um 285.000 tonn en hann var 277.000 tonn 2019.
Þetta var meðal þess sem kom fram í erindi Tinnu Gilbertsdóttur, sölustjóra hjá Iceland Seafood, á Markaðsdegi fyrirtækisins í síðustu viku.
„Við sjáum fram á að þorskverð verði áfram hátt á þessu ári en það dragi úr verðhækkunum eins og gjarnan gerist þegar verð hefur hækkað mikið yfir stuttan tíma,“ sagði Tinna.
Stöðugleiki hefur verið í heimsframboði á ýsu allt frá árinu 2016. Þó er útlit fyrir að það aukist á milli áranna 2019 og 2020 og fari úr 299.000 tonnum í 340.000 tonn. Þar af verður hlutur Íslendinga um 50.000 tonn og Norðmanna um 110.000 tonn.
„Við metum það sem svo að markaðshorfur í ýsu séu í besta falli ágætar eins og staðan er núna. Markaður fyrir ýsu hefur hins vegar ekki stækkað. Það eru enn sömu markaðirnir sem taka mest af henni. Þeir eru helstir Bretland og Bandaríkin sem taka jafnan lungann af þessari tegund og töluverð barátta er milli framleiðslulandanna. Það er því okkar mat að það sé heldur ólíklegt að verð muni hækka árið 2020 og við munum í besta falli halda okkur í svipuðu horfi.“
Verð á karfa gæti hækkað
Það hefur einnig verið stöðugleiki í heimsframboði á ufsa. Í fyrra nam framboðið 351.000 tonnum og útlit fyrir að það verði um 369.000 tonn á þessu ári. Framboð frá Íslandi verður um 80.000 tonn líkt og á árinu 2019. Markaðurinn er sterkur í sögulegu samhengi og spáir Tinna engri sérstakri breytingu á því á þessu ári. Helstu markaðirnir hafa verið Tyrkland, Spánn og Þýskaland.
Ekki hefur síður verið stöðugleiki í framboði á karfa árin 2016-2019, eða frá 170.000-182.000 tonn. Framboð frá Íslandi hefur einnig verið stöðugt á þessum árum eða frá um 55.000 tonnum undanfarin ár og verður líklega um 50.000 tonn á þessu ári. Ísland er enn stærsta framleiðsluland karfa í heimi. Góðar markaðshorfur eru fyrir tegundina og verð verið í jafnvægi. Tinna segir segir að ekki sé loku fyrir skotið að verð á karfa hækki þegar líður á árið.
3,4 milljónir tonna af alaskaufsa
Til samanburðar við þær tegundir sem Íslendingar veiða nefndi Tinna heimsframboð á alaskaufsa og kyrrahafsþorski sem eru vissulega samkeppnistegundir á alþjóðavísu. Svipaðar horfur eru á þessu ári hvað varðar framboð á alaskaufsa og undanfarin ár eða um 3.442.000 tonn. Stærstir í þessum veiðum eru Rússar með um 1.700.000 tonn og Bandaríkjamenn með um 1.530.000 tonn. Tinna sagði að með öflugu markaðsstarfi og vöruþróun hafi neysla á alaskaufsa aukist í heiminum. Í Bretlandi hafi neysla á honum aukist á kostnað atlantshafsþorsks. Alaskaufsi er mikilvægasta tegundin til viðmiðunar í hvítfiski vegna þess hve mikið framleitt er af honum. Hann hafi jafnan áhrif á verð á öðrum hvítfiski og setji ákveðna línu í verðmyndun.
Dregið hefur úr framboði á kyrrahafsþorski undanfarin ár en 446.000 tonn komu inn á markaðina 2016. Útlit er fyrir að framboðið verði um 365.000 tonn á þessu ári. Líklegt sé að íslenskur þorskur njóti góðs af minna framboði af kyrrahafsþorski.
„Minna framboð af kyrrahafsþorski leiðir jafnan til þess að kaupendur færa sig í auknum mæli yfir í atlantshafsþorsk sem hefur áhrif til verðhækkunar. Einnig hefur vinnsla á kyrrahafsþorski verið að færast úr hausun og heilu yfir í flök og bita sem hefur ýtt verði á honum upp á við. Hann er því ekki lengur jafn ódýr valkostur og hann var áður,“ sagði Tinna.