Hnúðlax er mun stærra vandamál í norskum ám en eldislax sem hefur sloppið úr sjókvíum, að minnsta kosti í Finnmörku. Þetta er mat Geirs Kristiansens, formanns Samtaka stangveiðimanna í Noregi. Bregðast verði við hvoru tveggja á sama tíma en hætt sé við því að það verði kostnaðarsamt.

„Við búumst við að ein milljón hnúðlaxa gangi í árnar í Norður-Noregi og sérstaklega í Finnmörku. Þessu er ekki hægt að lýsa á annan hátt en sem hörmung. Nú verða stjórnvöld að úthluta nægu fjármagni til þess að berjast gegn þessari náttúruvá áður en það verður of seint,“ segir Geir.

Fjöldi hnúðlaxa sem búist er við í norskum ám byggir á mati á þróun sem hefur átt sér stað undanfarin ár. Árin 2017, 2018 og 2019 veiddust 6.600 hnúðlaxar í norskum ám á hverju ári en í fyrra voru þeir um 200.000 talsins, þar af um 90% í Finnmörku. Ekki er vitað hve hátt hlutfall þeirra hefur hrygnt í norskum ám. Ekki er heldur vitað um fjölda hnúðlaxa frá ám sem renna í Hvítahaf úti fyrir norðvesturströnd Rússlands. Uppruni þeirra er þó ótvírætt þaðan þar sem Rússar gerðu tilraunir með hafbeit á hnúðlöxum í ám við Hvítahaf og á Kolaskaga. Til samanburðar við eina milljón hnúðlaxa er talið að um 550 þúsund villtir laxar séu í hafinu úti fyrir Noregi og þar af gengu um 152 þúsund villtir laxar í ár í Norður-Noregi.

Fiskifréttir greindu frá því í sumar að aldrei hefðu veiðst fleiri hnúðlaxar í ám hér á landi en sumarið 2021 en þá voru skráðir samtals 339 hnúðlaxar í stang- og netaveiði. Hnúðlaxar hafa lengi sést í íslenskum ám en sá fyrsti sem vitað er um að hafi veiðst hér á landi var árið 1960 á Mýrum. Vorið 2022 fundust seiði í þrem ám á suðurvesturhluta landsins, þ.e. Botnsá í Hvalfirði, Langá á Mýrum og ármótum Grímsár-Hvítár í Borgarfirði.