Góður gangur er í smíði togbátanna Varðar og Áskels í skipasmíðastöð norsku skipasmíðastöðvarinnar Vard í Noregi í Víetnam, að sögn Inga Jóhanns Guðmundssonar, framkvæmdastjóra útgerðarfélagsins Gjögurs á Grenivík. Við hönnun skipanna er lögð áhersla á hagkvæma orkunýtingu.
Vörður og Áskell leysa af hólmi eldri skip með sömu nafni sem Gjögur hefur gert út um árabil. Eins og Fiskifréttir greindu frá í fyrra voru undirritaðir samningar um smíði á sjö nýjum togurum fyrir fjögur íslensk útgerðarfyrirtæki í árslok 2017. Tvö skip verða smíðuð fyrir útgerðarfélagið Berg-Huginn, dótturfélag Síldarvinnslunnar; önnur tvö skip fyrir Gjögur, tvö fyrir Skinney-Þinganes og eitt fyrir Útgerðarfélag Akureyringa.
80 tonn af ísuðum fiski
Áætlað var að smíði hvors skips taki 14 mánuði og er gert ráð fyrir að fyrstu skipin verði afhent á vormánuðum eða í sumar.
Nýju skipin eru smíðuð af VARD í Noregi og fyrirkomulag og val á búnaði er unnið í samstarfi við útgerðirnar. Skipin verða 28,95 m að lengd og 12 m að breidd. Í þeim verða tvær aðalvélar með tveimur skrúfum. Ný kynslóð rafmagnsspila verða í skipunum frá Seaonics.
Þessi nýju systurskip verða vel búin í alla staði og í þeim verða íbúðir fyrir þrettán manns. Þau munu taka um 80 tonn af ísuðum fiski.
Við hönnun skipanna hefur verið vandlega hugað að allri nýtingu á orku.
Við hönnun á vinnsludekki verður höfð að leiðarljósi vinnuaðstaða sjómanna, öflug kæling og góð meðhöndlun á fiski. Horft verður til þeirra gæða og reynslu sem íslenskir framleiðendur búa yfir á smíði vinnslubúnaðar.