Íslendingar hafa samið og eru að semja um smíði 12 nýrra fiskiskipa fyrir um 30 milljarða króna. Fyrsta skipið var afhent fyrr í sumar en hin skipin koma á næstu tveimur til þremur árum. Þetta kemur fram í nýjustu Fiskifréttum.

Hrina nýsmíða í fiskiskipaflotanum gengur nú yfir. Fara þarf áratugi aftur í tímann til að finna jafnmikla grósku í nýsmíðum skipa og nú er. Á árunum 2013 og 2014 hefur verið samið um smíði 9 fiskiskipa fyrir Íslendinga og samningar um 3 skip til viðbótar eru í burðarliðnum. Samningsverðið er alls um 30,2 milljarðar króna ef allir samningar ganga eftir.

Lokið var við fáeina þessara samninga á síðasta ári en þeir náðu hámarki í vor og sumar. Um er að ræða þrjú uppsjávarveiðiskip og hugsanlega níu ísfisktogara. Sex útgerðir standa á bak við þessar nýsmíðar og eru þær með misjafnlega mörg skip. Fyrsta skipið af þessum 12 var afhent í sumar. Sjálfsagt hefur ekki verið séð fyrir endann á þessari bylgju því endurnýjunarþörfin er rík og aðstæður til fjárfestingar í sjávarútvegi virðast vera hagstæðari en oft áður.

Sjá nánar samantekt um nýsmíðar fiskiskipa í nýjustu Fiskifréttum.