Icelandic Group hf. hefur gengið frá sölu á dótturfélagi sínu Gadus til Steinasala ehf. og hefur afhending félagsins farið fram til nýrra eigenda, að því fram kemur í fréttatilkynningu.

Hluthafar Steinasala eru Akur fjárfestingar slhf., Brim hf., Fishproducts Iceland ltd., Hraðfrystihús Hellissands hf., Kambur hf., KG fiskverkun ehf., Oddi hf., Sæmark-Sjávarafurðir ehf. og Þorbjörn hf.

Allir stjórnendur hjá Gadus munu starfa áfram með nýjum eiganda, en heildarstarfsmannafjöldi félagsins er um 130 talsins.

Gadus er leiðandi framleiðslu-, sölu- og dreifingaraðili á ferskum sjávarafurðum í Belgíu og er fyrirtækið staðsett í Nieuwpoort. Helstu söluvörur félagsins eru þorskur og lax til smásölu- og heildsöluaðila í Belgíu. Tekjur Gadus námu ríflega 83 milljónum evra árið 2016, en um 7.000 tonn af vörum fara árlega um verksmiðju félagsins.

Markmið kaupanda er að efla sölu og markaðssetningu á íslenskum sjávarafurðum í Belgíu og mið-Evrópu. Steinasalir vilja halda áfram að efla félagið ásamt því að tryggja hagsmuni íslensks sjávarútvegs við markaðssetningu á hágæða fiskafurðum á erlendum mörkuðum.

Íslandsbanki var ráðgjafi Icelandic Group og Deloitte var ráðgjafi kaupanda.