Sveitarstjórn Strandabyggðar ætlar að skoða alla möguleika á að veita starfsfólki rækjuvinnslu Hólmadrangs þá aðstoð og þjónustu sem í boði er við þær aðstæður sem hafa myndast nú þegar eigendur vinnslunnar hafa ákveðið að hætta starfsemi um næstu mánaðamót.
Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri Strandabyggðar, segir að sveitarstjórn hafi fundað um þá stöðu sem nú er komin upp, eftir að tilkynnt var um stöðvun rækjuvinnslu Hólmadrangs á Hólmavík.
„Þetta er mikið högg fyrir alla, en fyrst og fremst fyrir starfsmenn, sem margir hverjir hafa unnið hjá fyrirtækinu í áraraðir og jafnvel alla sína starfstíð. Fyrstu viðbrögð sveitarstjórnar eru því hlýhugur til alls þessa fólks, og þakkir fyrir þeirra vinnuframlag í gegnum tíðina. Það er ekki sjálfgefið að fyrirtæki nái að byggja upp slíkan starfsmannahóp. Sveitarstjórn mun skoða alla möguleika á að veita starfsfólki þá aðstoð og þjónustu sem í boði er við þessar aðstæður.“
Hann segir að sveitarstjórnin vilji leggja áherslu á, að mikilvægt sé að eigendur Hólmadrangs hafi gefið það skýrt til kynna, að þeir hyggist vinna með heimamönnum að skoðun nýrra tækifæra og hafi þar nefnt sem dæmi nýlega viljayfirlýsingu Strandabyggðar og Íslenskra verðbréfa um skoðun á möguleikum í haftengdum verkefnum. Þá hafi eigendur ráðið verkefnastjóra með mikla þekkingu og reynslu á þessu sviði, til að vinna með heimamönnum að skoðun framtíðarmöguleika.
„Sveitarstjórn mun beita sér eins og kostur er í þessari vinnu. Við köllum eftir samstöðu og samhug meðal íbúa í þeirri stöðu sem nú blasir við,“ segir Þorgeir.