Opnað verður fyrir dragnótaveiðar í Faxaflóa 1. september eins og hefð er orðin fyrir á hverju ári. Einn þeirra sem ætla að prófa sig við þessar veiðar á þessu hausti er Pétur Pétursson útgerðarmaður hjá Bárði SH 81 ehf. í Ólafsvík og á Arnarstapa. Báturinn sem verður notaður við veiðarnar er Stapafell SH 26, áður Leifur EA og þar áður Þorleifur EA, sem Pétur keypti frá Grímsey í apríl síðastliðnum.

Fimm leyfi

Veiðar með dragnót inn an 12 mílna og á öðrum sérstaklega skilgreindum svæðum eru háðar sérstöku leyfi Fiskistofu. Fiskistofa auglýsir eftir umsóknum í ágúst hvert ár og eru leyfin bundin við fiskveiðiár. Fiskistofu höfðu borist fimm leyfi fyrir dragnótaveiðum í byrjun vikunnar en bátum sem stunda þessar veiðar hefur fækkað mikið á undanförnum árum.

Fyrsta sinn í Flóann

„Þetta er í fyrsta sinn sem við erum með bát sem við getum not að í Flóanum. Þar geta veitt bátar undir 24 metrum að mestu lengd. Tímabilið er frá 1. september til 24. september þannig að þetta er stutt tímabil. Mér datt í hug að prófa þetta en svo kemur bara í ljós hvort það sé skynsamleg ákvörðun eða ekki,“ segir Pétur.

Fimm til sex manns verða í áhöfninni og ætla menn að slægjast eftir skarkola aðallega. Pétur segir markaðinn fyrir skarkola ágætan og auk þess er þetta tegund sem tiltölulega auðvelt er að ná í heimildir fyrir. Auk þess hafa bátar Péturs veitt þorsk fyrir Fiskkaup í Reykjavík undanfarin haust. Það liggi því vel við að landa honum á Faxaflóasvæðinu.

Pétur reiknar með að Stapafellið verði gert út frá Reykjavík þennan tíma sem dragnótaveiðarnar standa yfir og í framhaldinu sitt á hvað eftir höfnum eftir því sem hentar.

Stapafell SH 26.
Stapafell SH 26.

Þrír bátar gerðir út

Pétur gerir nú út þrjá báta; Bárð SH 81, sem er stærsti trefjaplastbátur landsins, tæpir 27 metrar á lengd sem kom nýr til landsins 2019 frá Danmörku, Bárð SH 811, 15 metra trefja plastbát sem gerður er út hluta úr árinu á net, og svo núna Stapafell SH 26. Þegar dragnótaveiðin hefst gengur í garð nýtt fiskveiðiár og Pétur segir útlitið svipað og það hefur verið í mörg ár.

„Þetta er sama tuggan og áður. Þótt búið sé að byggja upp gríðarlega stóran þorskstofn virðist ekki vera vilji til þess að veiða meira úr honum. Ég og langflestir kollegar mínir erum þeirrar skoðunar að það mætti bæta hressilega í veiðarnar. En menn virðast vilja fjölga hval í staðinn sem er í bullandi samkeppni við þorskinn um æti. Þetta endar illa ef menn ætla að haga málum með þessum hætti um ókomin ár. Stofn hnúfubaks hefur líklega áttfaldast síðustu 20 árin í Norður-Atlantshafi. Það er alls staðar mikið af hval. Áður var hann árstíðabundinn og fylgdi loðnunni en nú er hvalur um allt árið sem hámar í sig seiði og síld og kominn lengst inn í firði. Það er mjög mikill hvalur fyrir norðan þar sem við höfum verið mikið við veiðar; í Húnaflóa þar sem hann hefur hreinsað upp rækjuna, í Eyjafirði og á Skjálfanda.“