Hópur vísindamanna hefur birt yfirlýsingu um mikilvægi líffræðilegrar fjölbreytni og vinnur að því að efla rannsóknir og fræðslu. Nýr samstarfsvettvangur kynntur og vefsíða opnuð.

„Nú er boltinn farinn að rúlla fyrir alvöru,“ segir Skúli Skúlason líffræðingur. Hann hefur, ásamt samstarfshópi líffræðinga á Íslandi, unnið að því að móta eins konar stefnulýsingu eða „manifestó“ um líffræðilega fjölbreytni, mikilvægi hennar og mikilvægi þess að glutra henni ekki niður.

„Núna eru þjóðir heims að berjast við að missa ekki líffræðilega fjölbreytni. Sameinuðu þjóðirnar, Evrópusambandið og alls konar samtök og einstaklingar eru að vinna af fullum krafti við að bjarga hreinlega heiminum.“

Hann segir þess vegna ekki vanþörf á að taka höndum saman og ekki síst standi það líffræðingum og öðru vísindafólki nærri að vinna að þessum málum.

„Við opnuðum kynningar-vefsíðu samstarfsvettvangsins á ráðstefnu Vistfræðifélags Íslands sem var haldin síðastliðinn föstudag og laugardag.“

Knýjandi þörf

Hópurinn sendi jafnframt frá sér ýtarlega stefnulýsingu sem lesa má á vefsíðunni Biodice.is. Þar er bent á knýjandi þörf til að bregðast við ástandinu með samstilltum aðgerðum.

„Ísland býr yfir mörgum einstökum eiginleikum sem veita framúrskarandi tækifæri til rannsókna og þekkingarleitar um uppruna, eðli og mikilvægi líffræðilegrar fjölbreytni, og jafnframt til að þróa skilvirkar verndaráætlanir,“ segir í stefnulýsingunni. „Í þessum skilningi getur Ísland verið fyrirmynd fyrir önnur landsvæði og ríki.“

Athyglinni er beint að lífríkinu öllu bæði á landi og í sjó, og meðal annars bent á að í höfunum kringum Ísland eru bæði stórir og verðmæti fiskistofnar auk þess sem Íslandshöf eru „afar mikilvægt kjörbýli fyrir ýmsar fartegundir og umferðartegundir sem staldra við í styttri tíma, einkum fuglar og sjávarspendýr.“

Vistkerfi undir álagi

„Þetta gengur í rauninni út á tvennt,“ segir Skúli. „Annars vegar erum við sem vísindamenn að reyna að átta okkur á hver er okkar sameiginlega sýn á vandamálið og skoða hvernig við getum staðið saman í þessu. Síðan er spurningin um hvað við ætlum að gera, hvert verkefnið er.“

Áherslan verði á áframhaldandi stefnumótunarvinnu, öflugar rannsóknir og almenna fræðslu um málið.

Í yfirlýsingunni er bent á að vistkerfi Íslands eru undir margs konar álagi, meðal annars af af völdum loftslagsbreytinga og ásóknar framandi tegunda, auk þess sem fiskveiðar eru hér mikilvægur atvinnuvegur og fiskeldi hefur vaxið hratt.

„Verndun líffræðilegrar fjölbreytni er eitt brýnasta verkefni vísindamanna, stjórnvalda og almennra borgara. Hún snertir nánast allar hliðar mannlífsins, þar með talin efnahagsmál, auðlindir, umhverfisógnir og lífskjör, og krefst skilyrðislausrar samþættingar vísindastarfs og stefnumótunar,“ segir í stefnulýsingunni.