Útgerðarfélagið Stálskip hefur ákveðið að selja allan kvóta, auk þess sem skip þess verður selt til Rússlands. Framvegis mun fyrirtækið einbeita sér að fjárfestingum í fasteignum og rekstri innanlands. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stálskipum.
Stálskip var stofnað 1970 af hjónunum Guðrúnu Lárusdóttur og Ágústi Sigurðssyni. Í tilkynningunni segir þau séu nú komin á níræðisaldur og hafi verið vakin og sofin yfir rekstrinum alla tíð. Undanfarin misseri hafi þau leitað leiða til að draga úr erli og álagi og varð eina færa niðurstaðan sú, eftir samningaumleitan síðustu mánaða, að selja Þór HF 4 til Rússlands og veiðiheimildir í íslenskri lögsögu til Síldarvinnslunnar og Gjögurs og úthafsheimildir til Útgerðarfélags Akureyringa.
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Skrifstofa Stálskips mun eftir sem áður verða starfrækt í Hafnarfirði og munu stöðugildi verða fjögur. Stjórn Stálskips verður óbreytt og Guðrún mun áfram starfa sem framkvæmdastjóri og lítur hún nýtt hlutverk félagsins björtum augum enda mun félagið eiga trygga framtíð með þessum hætti, segir í tilkynningunni.