Útgerðarfyrirtækið Stálskip sem gerði út frystitogarann Þór HF greiddi á síðasta ári hæst meðallaun allra þeirra fyrirtækja á landinu, sem tóku þátt í árlegri könnun Frjálsrar verslunar meðal stærstu fyrirtækja landsins. Sem kunnugt er seldi Stálskip skip og kvóta fyrr á þessu ári. Meðalárslaun hjá Stálskipum voru um 20,4 milljónir króna á árinu 2013, sem gerir um 1,7 milljónir króna að meðaltali á mánuði.

Meðallaun hjá Brimi hf. voru 18,8 milljónir í fyrra, tæpar 1,6 milljónir á mánuði, og er fyrirtækið í öðru sæti á listanum yfir þau fyrirtæki á landinu sem greiða hæstu meðallaun. Eskja hf. er í þriðja sæti á listanum en fyrirtækið greiðir 18,7 milljónir fyrir ársverkið. Gjögur hf. er í fjórða sæti með um 18,3 milljóna króna árslaun að meðaltali.

Sú var tíðin að útgerðir skipuðu allflest efstu sætin á lista Frjálsrar verslunar yfir hæstu meðallaunin. Með fjármálabólunni breyttist þetta verulega en frá hruni hefur dæmið snúist við á ný. Sjávarútvegsfyrirtæki eru í fjórum efstu sætunum yfir hæstu meðallaun á árinu 2013. Þá eru alls níu sjávarútvegsfyrirtæki í hópi 20 fyrirtækja sem greiða hæstu meðallaunin.

Til athugunar

Rétt er að taka fram að listinn yfir hæstu meðallaunin hjá sjávarútvegsfyrirtækjum miðast við ársverk og endurspeglar t.d. ekki alltaf raunveruleg laun einstakra skipverja (þar sem um hreina útgerð er að ræða) nema þeir fari í allar veiðiferðirnar.

Fjallað er um málið í nýjustu Fiskifréttum.