Systurskipin Breki VE og Pál Pálsson ÍS, sem nú eru í smíðum í Kína, sæta tíðindum að því leyti að skrokklag þeirra er nýlunda meðal skipa af svipaðri stærð og skrúfurnar eru þær stærstu í víðri veröld miðað við vélarafl. Skrúfur Breka og Páls eru tæplega fimm metrar í þvermál og nýta vélarafl við togveiðar á þann veg að áætlað er að eldsneytissparnaður nemi allt að 40%.
„Við getum fyllilega staðið við þá fullyrðingu að engir togarar af þessari stærð í heiminum nýta vélarafl betur til togveiða en gerist með Breka og Pál Pálsson. Þeir eru sannarlega hannaðir í þágu gæða, orkusparnaðar og umhverfisverndar,“ segir Sævar Birgisson, framkvæmdastjóri Skipasýnar, sem hannaði skipin.
„Aðalatriðið er að hámarka veiðigetuna og það var leiðarljósið við hönnunina. Markmiðið var að stytta togtímann eins og kostur væri. Það gerðist fyrst og fremst með því að hanna og búa Breka og Pál tveimur trollum sem hægt er að draga samtímis. Togari með tvö troll í sjónum samtímis hefur 60% meiri veiðigetu en togari með eitt troll. Aukin afköst en jafnframt styttri togtími jafngildir meiri hráefnisgæðum og möguleikum til að fá betri og verðmætari vöru fyrir neytendur á mörkuðunum.“
Sjá nánar á vef VSV.