Senn líður að því að Pétur Pétursson útgerðarmaður og skipstjóri á Bárði SH á Arnarstapa fái afhentan nýjan trefjaplastbát sem nú er í smíðum hjá Bredgaards Boats í Rødby í Danmörku. Sá verður 26,90 metra langur og 7 metrar á breidd og þar með stærsti trefjaplastbátur sem smíðaður hefur verið fyrir íslenska útgerð. Líklegt er að báturinn verði sóttur til Danmerkur í byrjun maí.
Gera má ráð fyrir að siglingin frá Danmörku til Íslands taki um sex sólarhringa. Pétur ætlar sjálfur að sækja hann ásamt liðsinni.
Pétur gerir nú út 30 tonna trefjaplastbát með sama heiti sem smíðaður var hjá Sandtaki 2001. Sá er tæpir 15 m á lengd og hefur reynst mikill aflabátur. Pétur var í landi þegar slegið var á þráðinn til hans en sonur hans og alnafni var farinn í róður. Pétur hóf útgerð frá Arnarstapa árið 1983 á sínum fyrsta Bárði SH sem var rúmlega tveggja tonna trébátur.
„Ég skrifaði undir samning um smíðina á Sjávarútvegssýningunni haustið 2017 og nú erum við að stækka verulega við okkur. Útgerðin hefur gengið ljómandi vel og báturinn sem við erum með núna reynst okkur vel. Það hefur yfirleitt verið góð veiði hjá okkur enda hart sótt," segir Pétur.
Á síðasta fiskveiðiári var veiðin yfir 1.500 tonn upp úr sjó og þannig hefur það verið síðustu ár. Í vetur hefur Bárður einungis verið á veiðum í Breiðafirði og veiðin verið góð.
Góður gangur
„Þetta er í raun einungis lítill vertíðarbátur sem við erum að fá, um 100 tonna bátur en hann er úr trefjaplasti sem er kannski frábrugðið frá öðrum bátum af þessari stærð. Trefjaplastbátarnir hafa reynst mér vel og ég ákvað því að fara þessa leið aftur. Það eru svo sem víða til stærri bátar úr plasti. Hann átti reyndar ekki að vera alveg svona stór í upphafi en hann stækkaði dálítið á smíðatímanum. Stundum vill teygjast á hlutunum. Við höfðum samband við skipasmíðastöðina í Danmörku og þeir voru tilbúnir að smíða bátinn eins og við vildum hafa hann. Ég grófhannaði bátinn sjálfur svo þeir sæju hvað ég væri að hugsa í þessum efnum. Svo var báturinn teiknaður upp eftir þeim hugmyndum. Ég veit ekki annað en að allt hafi gengið eftir áætlunum varðandi smíðina og þetta lítur allt ljómandi vel út,“ segir Pétur.
Hann segir að nýja bátnum fylgi sem von sé betri aðstaða fyrir áhöfnina og bætt aflameðferð. Hann segir himinn og haf skilja að tæknina eins og hún var þegar hann var að byrja útgerð og nú. Og þá er sama sé hvar borið er niður.
„Nú er allur fiskur blóðgaður í sjó og hann fari allur í kör í krapa og kældur um leið. Gæðin eru allt önnur en þau voru áður. Við erum að skila af okkur mikið betri vöru.“
Pétur er einn fárra sem ennþá gerir út á þorskanet. Það er helst á Breiðafirðinum að örfáir bátar geri út á net hluta úr árinu, í janúar og febrúar. Annars eru þeir mest á snurvoð. Svo hefur stóru línubátunum fjölgað mikið.
Meðalþyngd í slægðu 10 kíló
Pétur hefur verið með frá þremur og upp í sex í trossur en undanfarið í þessu mikla fiskiríi hefur dugað að vera með þrjár trossur. Oft hefur þurft að fara tvær ferðir þótt einungis tvær trossur séu í sjó. Mest hafa fengist tólf tonn í trossu í vetur en að jafnaði fást um fimm tonn í trossu í janúar og febrúar.
Ljómandi vænn fiskur hefur verið uppistaðan í aflanum og meðalþyngdin á slægðu verið í kringum tíu kíló. Pétur leggur meðal annars upp hjá Þórsnesi í Stykkishólmi og hentar þessi stóri fiskur ljómandi vel fyrir saltfiskvinnsluna þar.
Pétri finnst ástandið á þorskinum gott og víða mikil veiði en hann hefur áhyggjur af loðnubresti.
„Það er spurning hvort við höfum ekki verið að taka of mikið úr þeim stofni á undanförnum árum. En ég hef mestar áhyggjur af því að við höfum verið að taka úr stofninum með röngum hætti með flottrolli. Í síðasta sjómannaverkfalli voru menn ekki að skarka á flottrollinu í loðnunni og fóru beint á nót í lok verkfalls. Það virtist ganga ljómandi vel að ná loðnunni í nót. Ég held að það sé bara almenn skynsemi að stefnt verði að því að veiða loðnuna í nót en ekki flottroll því ég efast ekki að það hafi truflandi áhrif á göngumynstur. En það er líka með loðnuna eins og annan uppsjávarfisk að hún birtist skyndilega og hverfur fljótt. Svo virðist sem skilyrðin í hafinu hafi breyst og loðnan sé hugsanlega farin að hrygna meira úti fyrir Norðurlandi.“