Makrílveiðin var dottin niður í íslensku lögsögunni síðastliðinn sunnudag og þá tók íslenski flotinn stefnuna út í Smugu. Beitir NK hélt hinsvegar til löndunar í Neskaupstað með tæp 300 tonn en á undan honum höfðu Barði NK og Margrét EA landað þar rúmlega 800 tonnum hvort skip.

Rætt er við Sigurð Valgeir Jóhannesson skipstjóra á Beiti á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

„Við þurftum að koma í land með þennan afla áður en haldið var í Smuguna. Veiðin var alveg dottin niður í íslensku lögsögunni. Staðreyndin er að menn geta verið afar ánægðir með veiðina í lögsögunni. Tekist hefur að halda vinnslunni samfelldri og skipin fimm í veiðisamstarfinu eru að verða hálfnuð með kvótann. Í íslensku lögsögunni hefur veiðst afar stór og fallegur makríll. Við höfum fengið hol þar sem meðalvigtin er yfir 600 grömm. Og við höfum séð enn stærri fiska eða á bilinu 700-800 grömm. Það er risastórt. Það fæst ekki svona stór fiskur í Smugunni en það virðist vera stærsti og öflugasti fiskurinn sem nær hingað inn í lögsöguna. Að löndun lokinni verður haldið beint í Smuguna en það eru rúmlega 300 mílur í skipin þar sem þau eru núna,” segir Sigurður.

Einnig var rætt við Odd Einarsson, yfirverkstjóra í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. „Það hefur gengið vel enda erum við með frábært starfsfólk. Líklega verður eitthvað hlé á vinnslunni núna þegar skipin eru að færa sig út í Smugu en annars má segja að vinnslan hafi verið samfelld frá upphafi vertíðar. Fiskurinn er ýmist heilfrystur, hausaður eða flakaður og það hefur verið framleitt meira af afurðum nú en í fyrra. Fiskurinn, sem við höfum fengið til vinnslu að undanförnu, er afar stór. Allmikið af honum er yfir 600 grömm og enn stærri. Ég greip einn stóran um daginn og vigtaði hann. Hann reyndist vera 890 grömm. Þetta er sannkallaður tröllafiskur,” segir Oddur.

Síðustu fréttir úr Smugunni herma að veiði í gær hafi verið misjöfn hjá skipunum í veiðisamstarfinu en samtals fengu þau þá um 650 tonn. Togað var í um 10 tíma. Eins og reiknað var með er fiskurinn í Smugunni mun smærri en sá sem fékkst í íslensku lögsögunni eða um 380 grömm.