Börkur NK kom til Seyðisfjarðar í gær með fullfermi af loðnu. Þegar var hafist handa við að landa úr skipinu og þegar löndun lauk 18 tímum síðar kom í ljós að aflinn var 3.409.308 kg. eða rúmlega 3.400 tonn. Þar með var ljóst að hér var um mettúr að ræða og líklega hefur loðnuskip aldrei fært jafn mikinn afla að landi.

Frá þessu er sagt á heimasíðu Síldarvinnslunnar og rætt við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra sem var eðlilega ánægður með túrinn.

„Þessi afli fékkst í átta holum á fjórum dögum. Það er ekki hægt að kvarta yfir slíkum aflabrögðum. Það eru einungis þrjú skip í íslenska flotanum sem geta komið með álíka afla að landi. Það er systurskipið Vilhelm Þorsteinsson EA og Beitir NK, en lestarrými Beitis er þó heldur minna en hinna tveggja. Mér vitanlega er einungis eitt skip sem getur slegið þetta met og er það hin danska Ruth. Ruth er spánný og smíðuð í Karstensens skipasmíðastöðinni eins og Börkur og Vilhelm og er með örlítið meiri burðargetu,“ segir Hjörvar.

Eggert Ólafur Einarsson, verksmiðjustjóri á Seyðisfirði, segir að hráefnið úr þessum mettúr sé afar gott. „Þetta er gæðahráefni og vinnslan hjá okkur gengur afar vel. Nú er líka góð veiði og nóg hráefni og við erum að undirbúa löndun úr Barða NK,“ segir Eggert í fréttinni.