Havfisk ASA í Noregi, áður Aker Seafood, hefur gengið frá sölu á einum togara sinna ásamt kvóta fyrir um 33 milljónir norskra króna, að því er fram kemur á vef Fishupdate.

Félagið hefur skrifað undir viljayfirlýsingu við kaupanda í Norður-Noregi um sölu á togaranum Jergul ásamt kvóta í þorski, ýsu og ufsa. Svokallað þorskleyfi fyrir togara fylgir einnig með í kaupunum.

Jergul er 41 árs gamall og elsti togari Havfisk. Kaupverðið fyrir skip og kvóta, 33 milljónir NOK, samsvarar um 670 milljónum ISK. Togarinn sjálfur er aðeins metinn á eina milljón króna (um 20 milljónir ISK). Salan miðast við afhendingu í janúar á næsta ári og er háð samþykki stjórnvalda.

Salan er hluti af endurnýjun á flota Havfisk sem nú á sér stað. Havfisk er stærsta útgerðarfélag Noregs. Félagið gerir út 11 togara en hefur samið um smíði þriggja nýrra togara til að leysa af hólmi eldri skip, þar á meðað Jergul. Tveir togarar voru seldir árið 2012. Fyrsti nýsmíðaði togarinn verður væntanlega afhentur Havfisk síðar á þessu ári.

Havfisk ASA hefur um það bil 11% af heildarþorskkvóta í Noregi. Markaðsvirði Havfisk er 458 milljónir NOK (9,3 milljarðar ISK) sem er um 50% af bókfærðu eigin fé.