Þegar framkvæmdum við fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað lýkur getur hún afkastað 2.330 tonnum á sólarhring og verður hún þá stærsta fiskimjölsverksmiðja landsins. Framkvæmdirnar eru langt komnar og hafa staðið yfir frá árinu 2021. Verksmiðjan verður tvískipt, annars vegar stór verksmiðjueining sem mun afkasta 2.000 tonnum á sólarhring og hins vegar lítil eining sem mun afkasta 380 tonnum. Frá þessu segir á heimasíðu SVN.
Margþættar og flóknar framkvæmdir
Framkvæmdirnar sem hér um ræðir eru margþættar og hefur verið flókið að sinna þeim á sama tíma og verksmiðjan hefur verið í fullum rekstri. Hér skulu meginþættir framkvæmdanna taldir upp:
- Byggt nýtt hrognavinnsluhús.
- Byggt nýtt 2000 fermetra verksmiðjuhús.
- Unnið að uppsetningu lítillar verksmiðjueiningar sem afkastar 380 tonnum á sólarhring.
- Unnið að umbótum og stækkun stóru verksmiðjueiningarinnar.
Hafþór Eiríksson verksmiðjustjóri segir að framkvæmdirnar hafi í reynd gengið ótrúlega vel enda allir tilbúnir að sýna tillitssemi og á það bæði við um starfsmenn verksmiðjunnar og verktakana.
„Þetta hefur ekki alltaf verið auðvelt en menn hafa leyst farsællega öll vandamál sem upp hafa komið. Mikil áhersla er lögð á að koma öllum tækjum og búnaði þannig fyrir að þægilegt verði að starfa í verksmiðjunni. Verksmiðjan verður sú stærsta á landinu og afkastageta hennar verður mikil. Nú eru tíu fiskimjölsverksmiðjur á landinu og afkasta aðrar verksmiðjur 800-1.200 tonnum á sólarhring á meðan þessi mun afkasta yfir 2.000 tonnum,” segir Hafþór.
Litla verksmiðjueiningin
Litla verksmiðjueiningin verður með tveimur framleiðslulínum og eru afköst hennar 380 tonn á sólarhring. Verksmiðjan kemur frá HPP Solutions ehf. en það er dótturfyrirtæki Vélsmiðjunnar Héðins. HPP Solutions einbeitir sér að framleiðslu lítilla fiskimjölsverksmiðja og eru þær nefndar próteinverksmiðjur.
Byrjað var að prufukeyra litlu verksmiðjuna í nóvembermánuði 2022 en þá var unnin síld í henni. Í byrjun desember var unninn kolmunni í verksmiðjunni og síðan kom röðin að loðnu. Vinnsla á öllum þessum tegundum gekk vel og voru starfsmenn fljótir að ná góðum tökum á öllum tækjabúnaði.
Orkusparnaður
En hver er tilgangurinn með þessari litlu verksmiðjueiningu? Hann er í reynd margþættur. Í fyrsta lagi hentar litla verksmiðjan vel til að vinna afskurð og það sem flokkast frá þegar manneldisvinnsla á síld, loðnu og makríl fer fram. Í öðru lagi skapar tilkoma litlu einingarinnar mikla möguleika á sviði orkuhagræðingar og er gert ráð fyrir að orkusparnaður með tilkomu hennar nemi allt að 30%. Í þriðja lagi er hentugt að nota litlu verksmiðjueininguna til ýmiss konar þróunarverkefna og í fjórða lagi verður unnt að keyra litlu eininguna og þá stóru á sitthvoru hráefninu.
Allar mælingar sem fram hafa farið benda til þess að litla einingin skili öllu því sem ætlast var til. Afköst hennar eru eins og ráð var fyrir gert og afurðirnar standast allar þær væntingar sem til þeirra voru gerðar.
Nýr tækjabúnaður í stóru verksmiðjueiningunni
Ný tæki í stóru verksmiðjueiningunni eru tekin í notkun í áföngum. Í upphafi árs voru til dæmis nýjar pressur teknar í notkun og þá voru einnig nýir sjóðarar og ný eimingatæki tilbúin til notkunar. Í kjölfar þeirra var forsjóðari tekinn í notkun og ný mjölskilvinda. Þá hefur nýr þurrkari verið reyndur og að sögn Hafþórs verksmiðjustjóra kemur hann vel út og skilar þeim afköstum sem til var ætlast. Hafþór segir að það hafi verið spennandi að taka nýju tækin í notkun hvert á fætur öðru.
„Heilt yfir hefur þetta gengið ótrúlega vel og afköst verksmiðjunnar hafa sífellt verið á uppleið. Samhliða hinum nýju tækjum hefur verið unnið að endurbótum á flutningskerfinu á mjölinu og það hefur gengið vel. Það er nú þegar komið gott jafnvægi á verksmiðjuna og nýi þurrkarinn kemur vel út. Hann byggir á því sama og gert var í litlu verksmiðjunni hvað varðar orkusparnað. Gufan frá katlinum er endurnýtt og það hefur jákvæð áhrif. Verksmiðjan er rafvædd að fullu og verst er að alltof oft fáum við ekki rafmagn til að keyra hana. Það er sorglegt að vera með allan búnað til að nýta raforku en þurfa samt að keyra verksmiðjuna á olíu. Heildarafköstin í verksmiðjunni eru nú um 2000 tonn en síðar verður settur upp viðbótarþurrkari og þá ætti fullum afköstum að vera náð en það eru 2380 tonn,” segir Hafþór.
Nú er verið að ganga frá tengingum á tveimur nýjum skilvindum í verksmiðjunni auk uppfærslu á rafmagns- og tölvubúnaði fyrir loftþurrkarana. Enn eru iðnaðarmenn að störfum í ýmsum verkefnum en það sér fyrir endann á hinum viðamiklu framkvæmdum.
Þegar framkvæmdum við fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað lýkur getur hún afkastað 2.330 tonnum á sólarhring og verður hún þá stærsta fiskimjölsverksmiðja landsins. Framkvæmdirnar eru langt komnar og hafa staðið yfir frá árinu 2021. Verksmiðjan verður tvískipt, annars vegar stór verksmiðjueining sem mun afkasta 2.000 tonnum á sólarhring og hins vegar lítil eining sem mun afkasta 380 tonnum. Frá þessu segir á heimasíðu SVN.
Margþættar og flóknar framkvæmdir
Framkvæmdirnar sem hér um ræðir eru margþættar og hefur verið flókið að sinna þeim á sama tíma og verksmiðjan hefur verið í fullum rekstri. Hér skulu meginþættir framkvæmdanna taldir upp:
- Byggt nýtt hrognavinnsluhús.
- Byggt nýtt 2000 fermetra verksmiðjuhús.
- Unnið að uppsetningu lítillar verksmiðjueiningar sem afkastar 380 tonnum á sólarhring.
- Unnið að umbótum og stækkun stóru verksmiðjueiningarinnar.
Hafþór Eiríksson verksmiðjustjóri segir að framkvæmdirnar hafi í reynd gengið ótrúlega vel enda allir tilbúnir að sýna tillitssemi og á það bæði við um starfsmenn verksmiðjunnar og verktakana.
„Þetta hefur ekki alltaf verið auðvelt en menn hafa leyst farsællega öll vandamál sem upp hafa komið. Mikil áhersla er lögð á að koma öllum tækjum og búnaði þannig fyrir að þægilegt verði að starfa í verksmiðjunni. Verksmiðjan verður sú stærsta á landinu og afkastageta hennar verður mikil. Nú eru tíu fiskimjölsverksmiðjur á landinu og afkasta aðrar verksmiðjur 800-1.200 tonnum á sólarhring á meðan þessi mun afkasta yfir 2.000 tonnum,” segir Hafþór.
Litla verksmiðjueiningin
Litla verksmiðjueiningin verður með tveimur framleiðslulínum og eru afköst hennar 380 tonn á sólarhring. Verksmiðjan kemur frá HPP Solutions ehf. en það er dótturfyrirtæki Vélsmiðjunnar Héðins. HPP Solutions einbeitir sér að framleiðslu lítilla fiskimjölsverksmiðja og eru þær nefndar próteinverksmiðjur.
Byrjað var að prufukeyra litlu verksmiðjuna í nóvembermánuði 2022 en þá var unnin síld í henni. Í byrjun desember var unninn kolmunni í verksmiðjunni og síðan kom röðin að loðnu. Vinnsla á öllum þessum tegundum gekk vel og voru starfsmenn fljótir að ná góðum tökum á öllum tækjabúnaði.
Orkusparnaður
En hver er tilgangurinn með þessari litlu verksmiðjueiningu? Hann er í reynd margþættur. Í fyrsta lagi hentar litla verksmiðjan vel til að vinna afskurð og það sem flokkast frá þegar manneldisvinnsla á síld, loðnu og makríl fer fram. Í öðru lagi skapar tilkoma litlu einingarinnar mikla möguleika á sviði orkuhagræðingar og er gert ráð fyrir að orkusparnaður með tilkomu hennar nemi allt að 30%. Í þriðja lagi er hentugt að nota litlu verksmiðjueininguna til ýmiss konar þróunarverkefna og í fjórða lagi verður unnt að keyra litlu eininguna og þá stóru á sitthvoru hráefninu.
Allar mælingar sem fram hafa farið benda til þess að litla einingin skili öllu því sem ætlast var til. Afköst hennar eru eins og ráð var fyrir gert og afurðirnar standast allar þær væntingar sem til þeirra voru gerðar.
Nýr tækjabúnaður í stóru verksmiðjueiningunni
Ný tæki í stóru verksmiðjueiningunni eru tekin í notkun í áföngum. Í upphafi árs voru til dæmis nýjar pressur teknar í notkun og þá voru einnig nýir sjóðarar og ný eimingatæki tilbúin til notkunar. Í kjölfar þeirra var forsjóðari tekinn í notkun og ný mjölskilvinda. Þá hefur nýr þurrkari verið reyndur og að sögn Hafþórs verksmiðjustjóra kemur hann vel út og skilar þeim afköstum sem til var ætlast. Hafþór segir að það hafi verið spennandi að taka nýju tækin í notkun hvert á fætur öðru.
„Heilt yfir hefur þetta gengið ótrúlega vel og afköst verksmiðjunnar hafa sífellt verið á uppleið. Samhliða hinum nýju tækjum hefur verið unnið að endurbótum á flutningskerfinu á mjölinu og það hefur gengið vel. Það er nú þegar komið gott jafnvægi á verksmiðjuna og nýi þurrkarinn kemur vel út. Hann byggir á því sama og gert var í litlu verksmiðjunni hvað varðar orkusparnað. Gufan frá katlinum er endurnýtt og það hefur jákvæð áhrif. Verksmiðjan er rafvædd að fullu og verst er að alltof oft fáum við ekki rafmagn til að keyra hana. Það er sorglegt að vera með allan búnað til að nýta raforku en þurfa samt að keyra verksmiðjuna á olíu. Heildarafköstin í verksmiðjunni eru nú um 2000 tonn en síðar verður settur upp viðbótarþurrkari og þá ætti fullum afköstum að vera náð en það eru 2380 tonn,” segir Hafþór.
Nú er verið að ganga frá tengingum á tveimur nýjum skilvindum í verksmiðjunni auk uppfærslu á rafmagns- og tölvubúnaði fyrir loftþurrkarana. Enn eru iðnaðarmenn að störfum í ýmsum verkefnum en það sér fyrir endann á hinum viðamiklu framkvæmdum.